Þýskur ráðherra, Þórdís og stríðið við Pútín

Þýskaland er í stríði við Pútín en ekki geðlækna hans. Við knéföllum ekki fyrir honum heldur krefjumst frelsunar úkraínskra landssvæða, jafnvel þótt það raski geðheilsu Pútín. Á þessa leið tísti heilbrigðisráðherra Þýskalands, Karl Lauterbach, um helgina.

Ráðherrann fékk á sig holskeflu gagnrýni, m.a. frá flokksfélaga sínum í flokki sósíaldemókrata og varnarmálaráðherra Þýskalands, Kristínu Lambrecht. Til að bæta skaðann varð Kristín að lýsa yfir að aldrei yrðu þýskir hermenn sendir aftur á gresjur Garðaríkis. Lykilorðið er aftur.

Nú er það vitanlega eitt þegar þýskur ráðherra lýsir yfir stríð við Pútín Rússlandsforseta og annað þegar íslenskur ráðherra utanríkismála, Þórdís Kolbrún, segir nýafstaðnar kosningar í fjórum héruðum þar eystra skrípaleik. Íbúar héraðanna kusu innlimun í Rússland en voru áður hluti Úkraínu. Þótt deila megi um um réttmæti atkvæðagreiðslunnar er hitt óhagganleg staðreynd að stór rússneskur minnihluti í Úkraínu undi hag sínum ekki ýkja vel undir Kænugarðsstjórninni.

Þjóðverjar börðust við Rússa í fyrri og seinni heimsstyrjöld. Sögulegt óbragð er af seinna stríði er dátar Hitlers sóttu heim Bjarmaland. Ísland sat hjá í bæði skiptin en hirti pólitískan ávinning, fullveldi í lok fyrra stríðs og stofnaði lýðveldi undir bresk-bandarískri hervernd er úrslit seinni hildarleiksins voru fyrirséð.

Tilfinningasemi í alþjóðasamskiptum er ekki heppilegur eiginleiki stjórnmálamanns. Alfa og ómega alþjóðasamskipta eru hagsmunir annars vegar og hins vegar raunsæi. Vinarþel kemur með virðingu fyrir staðreyndum en þykkja fylgir gelgjulegum upphrópunum.

Óþarfi er að fjölyrða um þýska ráðherrann, sjónarmið hans spila beint upp í hendur Pútín sem réttlætti innrásina m.a. með nauðsyn afnasistavæðingar Úkraínu.

Öðru máli gegnir með Þórdísi Kolbrúnu. Hvorki á hún né Ísland aðild að deilu bræðraþjóðanna í austri. Löng saga er fyrir vinsamlegum samskiptum Íslands og Rússlands/Sovétríkjanna. Þar áttum við t.d. hauka í horni í landhelgisdeilunni við breska heimsveldið.

Stríðinu í Garðaríki lýkur annað tveggja með friðarsamningum eða uppgjöf. Nær óhugsandi er að landamærin verði þau sömu og fyrir stríð. Frá Rómarveld að telja er saga fyrir færslu landamæra á meginlandi Evrópu í kjölfar hernaðar, þótt það hafi farið framhjá utanríkisráðherra.

Þórdís Kolbrún ætlar sér framtíð í pólitík. Hún gerði bæði sjálfum sér og íslenskum hagsmunum greiða með því að tala ekki upp Rússland sem óvin Íslands. Í stjórnarráðum stórvelda eru haldnar skrár um afstöðu og ummæli eins og þau sem utanríkisráðherra hefur látið sér um munn fara. Það bætir ekki hag Íslands að ráðherra lýðveldisins verði persona non grata í Kreml.


mbl.is Meiri stuðningur við Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þórdís Kolbrún ætti að slíðra sverðið og láta vera að endurvarpa orðræðunni sem fram fer á NATO fundunum. Það gerir hana bara hlægilega og lýsir ekki mikilli greind. 

Ragnhildur Kolka, 4.10.2022 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband