Miðvikudagur, 5. október 2022
Ragnar Arnalds
Ragnar Arnalds var borinn til grafar um helgina. Ég kynntist Ragnari í Heimssýn sem stofnuð var 2002 til að andmæla vaxandi þrýstingi að Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu. Ragnar var helsti stofnandi Heimssýnar og fyrsti formaður. Fyrsta sinn sem ég hitti Ragnar var aftur í Keflavíkurgöngu um 1980. Kalda stríðið var áskorun fyrir fullveldið, svikalognið á eftir önnur og meiri.
Fyrstu afskipti Ragnars að þjóðmálum voru á menntaskólaárunum. Vettvangurinn var Þjóðvarnarflokkurinn og málgagnið Frjáls þjóð. Á milli Þjóðvarnar og Heimssýnar var Ragnar formaður, þingmaður og ráðherra Alþýðubandalagsins.
Á stjórnarfundum Heimssýnar, sem oft voru haldnir á heimili Ragnars, var nafngift hreyfingarinnar til umræðu. Ragnar sagði að horfið hefði verið frá forskrift Norðmanna, sem kölluðu sín samtök Nei til EU. Á íslensku er Nei við ESB óþjált. Í huga Ragnars skipti þó meira máli að Heimssýn undirstrikar að andstæðingar ESB-aðildar eru ekki einangrunarsinnar. Ísland ætti ekki að tjóðra sig við félagsskap meginlandsríkja Evrópu.
Samskipti við aðrar þjóðir skyldu vera á jafnræðisgrunni, var skoðun formannsins. Þetta er sama röksemdin og Jón Sigurðsson notar í blaðagreininni Hugvekja til Íslendinga frá 1848. Greinin lagði grunninn að fullveldinu 1918 og lýðveldinu 1944 - þegar Ragnar var sex ára.
Fullveldið er krafa um hagnýtt vald til að hafa forræði eigin mála. ,,...það er og verður ómögulegt að stjórna Íslandi frá Kaupmannahöfn, á sama hátt og híngaðtil, nema svo sé, að skjóta eigi loku fyrir alla framför landsins..." skrifaði Jón fyrir 174 árum. Sjálfstæðið er sívirk auðlind er heiti bókar Ragnars Arnalds. Hugsunin er sú sama. Borgin sem ógnar fullveldi Íslands á 19. öld er Kaupmannahöfn en Brussel á þeirri 21stu.
Einstaklingar úr ólíkum áttum stofnuðu Heimssýn. Það er Ragnari öðrum fremur að þakka að samstarfið gekk snurðulaust. Hann var maður málamiðlana sem missti ekki sjónir á meginmarkmiðinu, að halda Íslandi utan ESB.
Einhverju sinni barst í tal á stjórnarfundi á heimili Ragnars hvort ekki hefði verið persónulegt ónæði fyrrum, þegar hann var þingmaður og ráðherra. Ekki vildi Ragnar meina það. Rifjaði þó upp að þegar hann var fjármálaráðherra hafi maður komið á heimili hans, æstur og með óuppgerðar sakir við ráðuneytið. Ég var út í garði að vökva, sagði Ragnar kíminn, og þegar óvelkomni gesturinn lét ekki segjast kældi ég hann með bunu úr slöngunni.
Blessuð sé minning Ragnars Arnalds.
Athugasemdir
LIKE
FORNLEIFUR, 6.10.2022 kl. 04:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.