Pútín skapar pólitíska ómöguleika

Innlimun fjögurra héraða Úkraínu í Rússland býr til þann veruleika að annað tveggja víki Pútín Rússlandsforseti, og innlimunin verði afturkölluð, eða Zelenski forseti í Kænugarði falli af stalli og Úkraína verði knúin til niðurlægjandi friðarsamninga.

Innlimunarræða forseta Rússlands tekur af allan vafa, héruðin verði rússnesk til frambúðar. Um þau verði ekki samið. Í ræðunni skorar hann á hólm vestræna síðnýlendustefnu sem engu eirir og krefst undirgefni við Bandaríkin, ESB og Nató.

Samtímis innlimun samþykktu Rússar herkvaðningu. Opinberlega er talað um 300 þús. hermenn. Yfirvöld í Pétursborg segja 80 þús. hermenn komi þaðan. Sé það yfirfært á allt Rússland verður fjöldinn líklega rúmlega milljón. Til þessa hafa Rússar beitt um 100 þús. manna herliði í Úkraínu, á móti um 400 þús. úkraínskum hermönnum.

Fyrir innrás í Úkraínu bjuggu Rússar að reynslu frá hernaðaraðgerðum í Sýslandi, sem hófust 2015. Herforingjar Rússa töldu sig geta náð árangri í Úkraínu tiltölulega liðfáir, líkt og í Sýrlandi. Það gekk ekki eftir, árangurinn varð minni en vonir stóðu til. Herkvaðningin er svar við þeim misreikningi.

Tíföldun á rússneskum hermönnum þýðir sigur á vígvellinum. Engu breytir þótt öll vopnabúr vesturlanda færu með hraðpósti til Kænugarðs, það væri einfaldlega ekki nóg. Vesturlönd hyggjast ekki fórna vestrænu blóði, aðeins fjármunum og vopnum, og við það situr.

Þriðji pólitíski ómöguleikinn er beiting kjarnorkuvopna. Biden Bandaríkjaforseti sagði Rússa komast að því fullkeyptu ef þeir kjarnorkusprengdu Úkraínumenn. Rússar gætu gert það ef Úkraínumenn hypjuðu sig ekki rússneskum landssvæðum, þ.e. fjögur nýinnlimuð héruð.

Ástæða er til að vera bjartsýnn á skásti pólitíski ómöguleikinn verði fyrir valinu, ekki sá sísti. En það er aldrei að vita þegar mætast stálin stinn.

Líklegasta framvindan er að stríðið dragist enn um nokkra mánuði. Herkvaddir Rússar, þeir sem búa að nýlegri herþjálfun, eru reiðubúnir til átaka og einhverjir þegar mættir til starfa. En það tekur 2-3 mánuði að þjálfa nýgræðinga.

Úkraínski herinn sótti í sig veðrið í september. Karkíf-hérað í norð-austri féll þeim í skaut og þeir tóku bæinn Liman í gær, eftir skipulegt undanhald Rússa.

Septembersókn úkraínska hersins kostaði mörg þúsund mannslíf. Rússar geta leyft sér að hopa af landi og þiggja blóðfórnir andstæðingsins. Þegar hentar hefja Rússar sókn og taka tapað land tilbaka með yfirtölu hermanna. Hingað til tapa Úkraínumenn fleiri mönnum bæði í sókn og vörn. Úkraínu blæðir út fyrr en Rússlandi. 

Rússneska hernaðarvélin vinnur skipulega, þótt stundum sé hún skrykkjótt. Víghreiður þeirra úkraínsku sitja undir látlausri stórskotahríð áður en fótgönguliðar sækja fram. Dag og nótt skjóta Rússar eldflaugum á birgðastöðvar og mannafla Úkraínumanna langt að baki víglínunnar. Úkraínumenn eru ekki í sömu færum að ná til óvinarins.

Eina bjargráð Úkraínumann er að úr verði kjarnorkustyrjöld milli vesturlanda og Rússlands. Í því skyni sótti Selenskí forseti um skyndiaðild að Nató. Honum verður ekki að ósk sinni. Vesturlönd voru tilbúin í smástríð og viðskiptaþvinganir til að lækka rostann í Pútín og gera hann stofuhæfan í vestrænum stássherbergjum. En vesturlönd heyja ekki kjarnorkustríð við Rússa vegna Úkraínu. Nema fyrir slysni.


mbl.is Nær ómögulegt að ljúka stríðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

"Þriðji pólitíski ómöguleikinn er beiting kjarnorkuvopna.

Biden Bandaríkjaforseti sagði Rússa komast að því fullkeyptu ef þeir kjarnorkusprengdu Úkraínumenn. Rússar gætu gert það ef Úkraínumenn hypjuðu sig ekki rússneskum landssvæðum, þ.e. fjögur nýinnlimuð héruð".

--------------------------------------------------------------------------------------

Hvað myndi Biden gera ef að rússar sendu kjarnorkusprengju á Úkraínu?

Myndi Biden senda kjarnorkusprengju á Moskvu í staðinn?

Eða hvað?

Jón Þórhallsson, 2.10.2022 kl. 10:32

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Engum með viti hefði dottið í hug að gasleiðslurnar milli Rússlands og Evrópu yrðu sprengdar upp. Innviðir sem skipta Evrópu svo miklu máli að tilvist þeirra ræður úrslitum um hvort hún þraukar af sem afl meðal þjóða. En leiðslurnar voru sprengdar og spurningin hver framdi verknaðinn hangir á hvers manns vörum. Herskáir NATO sinnar benda á Rússa sem sverja verknaðinn af sér rétt eins og BNA og þjóðir ESB... Hver þá?

Hér er trúverðug tilgáta um gerendur illvirkisins:

Luongo: The Curious Whodunit Of Nordstreams 1 & 2 | ZeroHedge 

Sé tilgátan rétt þá má spyrja:  Nú þegar NS1&2 eru úr vegi hvað stoppar öfgatrúboðið í að varpa einni og einni kjarnorkusprengju á hentugt skotmark?

Ragnhildur Kolka, 2.10.2022 kl. 12:03

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Rétti Pútín um daginn ekki fram sáttarhönd og talaði um frið (veit vel að þetta hljómar Hitler falskt)
Forseti Úkraínu var fljótur að svara með að ALLIR rúsneskir hermenn í Úkraínu yrðu drepnir

Spurningin er vill USA, ESB og UK frið eða þjónar það þeirra hagsmunum að viðhalda stríðinu.
Biden er algjörlega örvæntingarfullur eftir vinsældum og kunngjörði meðal annars um daginn að hann(forseti USA - valdamesti maður heims?) mundi beita sér fyrir því að foreldrar fengju ókeypis sætið í flugvélinni við hliðina á grenjandi krakkanum þeirra.
Ursula er himinlifandi ef hægt er að beina athyglinni frá vandræðum ESB
Truss telur sig geta kennt Pútin um öll fjárhagsvandræði UK

Grímur Kjartansson, 2.10.2022 kl. 20:15

4 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Rússland er að tapa og Pútin verður settur af sem einvaldur yfir Rússlandi. Stuðningsmönnum þessa einvalds í Rússlandi verður sú eina uppskera að verða til sögulegrar skammar næstu 100 árin eða þangað til að viðkomandi gleymast úr íslenskri þjóð. Innrás og innlimun Rússlands á landvæði Úkraínu er ólögmæt samkvæmt alþjóðlegum lögum og landamæri Úkraínu standa óbreytt eins og þau voru ákvörðuð árið 1991 þegar Sovétríkin hrundu.

Jón Frímann Jónsson, 2.10.2022 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband