Samráð fjölmiðla og gerendameðvirkni

,,Fyrir um hálfu ári hittust fulltrúar ritstjórna allra helstu miðlana, (MBL, Vísir, DV, Fréttablaðið og RÚV) á fundi til þess að fara yfir verklag tengdum tilvitnum í aðra miðla. Þar voru fulltrúar allra miðla á sömu blaðsíðunni um að gæta ætti hófs varðandi hversu stór hluti er „afritaður“ sem og að geta þurfi heimilda."

Orðin hér að ofan eru skrifuð af ritstjóra DV, Birni Þorfinnssyni, á umræðusíðuna Fjölmiðlanördar á Facebook. Tilefnið er gagnrýni Ásgeirs Ingvarssonar blaðamanns á DV fyrir að hafa ,,stolið" frétt frá Mbl.is án þess að geta heimildar.

Samskiptahættir fjölmiðla innbyrðis eru sjaldan gerðir opinberir með þessum hætti. Fjölmiðlar birta fréttir til að skemmta og upplýsa. Þeir fá fjárstuðning úr ríkissjóði í nafni lýðræðis. Mikilvægt er, heitir það, að sem flestar raddir heyrist og fréttamál fái umfjöllun frá sem flestum sjónarhornum. Þá geti almenningur myndað sér upplýsta skoðun á mönnum og málefnum.

En ef það er víðtækt samráð, bæði formlegt og óformlegt, milli fjölmiðla um hvað teljist fréttir og hvað ekki fer lítið fyrir fjölbreytni í fréttavali og sjónarhorni. Almenningur heyrir aðeins samráðsröddina. Um leið dettur botninn úr rökstuðningi fyrir ríkisvaldið að ausa peningum í marga miðla sem tala einni röddu.

Allt frá í nóvember á síðasta ári fær stórt fréttamál, raunar risastórt, sáralitla umfjöllun í fjölmiðlum. Hér er vitanlega átt við líkamsárás (byrlun), friðhelgisbrot og stafrænt kynferðisofbeldi gegn Páli Steingrímssyni skipstjóra.

Fjórir blaðamenn á RÚV, Stundinni og Kjarnanum (RSK-miðlar) eru með stöðu sakborninga. Töluvert er til af gögnum, ekki síst dómsskjölum, sem urðu til þegar einn blaðamannanna neitaði að mæta í yfirheyrslu lögreglu.

En fjölmiðlar segja næsta fátt, birta tilkynningar RSK-miðla í mesta lagi en segja sáralítið um efnisatriði málsins. Allur þorri þeirra fáu frétta sem sagðar eru er skrifaður frá sjónarhorni sakborninga. Þannig háttar til að manni sem varð fyrir ,,vinnubrögðum" RSK-miðla var vart hugað líf. Samt gengur fréttaflutningur út á að sakborningum finnist ,,íþyngjandi" að eiga aðild að málinu. Gerendasamúðin verður ekki augljósari.

RSK-miðlar stjórna stéttarfélagi blaðamanna, BÍ, sem óspart er beitt í þágu gerenda. RSK-miðlar eru með slík ruðningsáhrif á fjölmiðlamarkaði að krefjist þeir þagnar um tiltekið fréttamál hlýða aðrir miðlar.

Ef jafn náið hagsmunasamráð væri stundað í viðskiptalífinu, og gert er á fjölmiðlum, væri Samkeppniseftirlitið löngu búið að láta til sín taka. Enginn hefur eftirlit með að fjölmiðlar sinni sínu hlutverki. Samráð gegn almannahagsmunum er látið átölulaust.

Til að bæta gráu ofan á svart eru samráðsfjölmiðlarnir fjármagnaðir með skattfé almennings.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Ég ætla ekki að taka of sértæka afstöðu, þótt þessi ákveðna frétt sem þú vísar í hafi fengið of litla umfjöllun og ábyggilega vegna tengsla sem hér er lýst, nema það að meginumfjöllun þessa pistils finnst mér alveg rétt og niðurstaðan rétt að fjölmiðlar á Íslandi eru of einsleitir og of mikið verið með sömu fréttirnar. Smæð samfélagsins og kunningsskapur eða vinskapur eða ættartengsl eru í raun engin sérstök ástæða sem ekki væri hægt að vinna gegn ef meira væri leitast eftir því að vera gagnrýnni á umfjöllunarefnið og leita í aðrar uppsprettur.

Raunar finnst mér þetta einnig birtast í Samherjamálinu og er því ekki alltaf sammála síðuhafa í hans mati þar. 

Í sambandi við Trump og Úkraínustríðið finnst mér fjölmiðlar orðnir ögn skárri, það er einhver tilfinning fyrir því að hlutleysiskrafan er mikilvæg, misjafnt þó eftir dögum hvernig það gengur.

Það er margt sem minnir á Hrunið 2008 í þessu. Þá mátti ekki gagnrýna og sérfræðingarnir allir á einu máli um að bankarnir myndu ekki hrynja. Síðan gerðist það öllum að óvörum. 

Ingólfur Sigurðsson, 16.8.2022 kl. 14:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband