Kissinger trompar Selenskí

Sókn Rússa þyngist í austurhéruðum Úkraínu. ,,Game over" fyrir Úkraínu ef þetta heldur áfram, segir bandarískur herforingi á CNN. Predikun Kissinger yfir alþjóðaelítunni Davos heggur í sama knérunn og nýlegur leiðari í New York Times: Úkraína verður að kaupa frið við Rússa með afsali á landi.

Biden-stjórnin óttast að Úkraína verði evrópskt Afganistan. Niðurlægjandi ósigur bandalagsríkis selur ekki vel í Bandaríkjunum. Það gæti riðið Demókrötum að fullu í þingkosningum í nóvember. 

Eftir útspil Kissinger og kó eykst þeim ásmegin í Evrópu sem vilja koma í veg fyrir úkraínskættaða efnahagskreppu í álfunni. Þrýstingurinn á stjórnina í Kænugarði að biðja um samninga minnkar ekki á næstunni.

Meinið er að Selenskí forseti er ekki í stöðu að kaupa frið með landaafsali. Úkraína býr við óstöðugt stjórnarfar, síðast 2014 var þar stjórnarbylting, og eftirgjöf á landi gæti leitt til byltingarástands. Viðbrögð skrifstofu forsetans við hugmyndinni eru vart prenthæf.

Pólverjar ku hafa sent tvær herdeildir til Úkraínu en hlýtt er á milli Varsjár og Kænugarðs um þessar mundir. Pólverjar gera sér hugmyndir um að fá Galisíu, vesturhluta Úkraínu, sem einu sinni var pólskt land. Selenskí forseti sér möguleika að hermenn frá Nató-ríkinu Póllandi gætu leitt til frekari íhlutunar hernaðarbandalagsins. Langsótt og örvæntingarfullt.

Hvít-Rússar vita af ágirnd Pólverja á úkraínsku landi. Þeir gætu fengið áhuga að taka sér bita af norðurhluta Úkraínu þegar Selenskí forseti falbýður land nágrönnum í vestri. Hvít-Rússar eru í bandalagi við Rússa og fengju leyfi frá Moskvu, ef ekki hvatningu, að nema land með soldátum.

Úkraína gæti verið komin á brunaútsölu fyrr en varir. 


mbl.is Segir Úkraínu eiga að afsala sér landsvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Evrópa er að átta sig á að hún er að tapa efnahagsstríðinu og nú bendir allt til að Donbas stríðið sé líka að tapast. Ef ekki er samið gæti Zeporitzy og Odesa líka tapast. 

Háð og spott vinna ekki stríð og Evrópa gæti lært af mistökum sínum í Ukrainu, þ.e. ef hún þá kann það. 

Ragnhildur Kolka, 26.5.2022 kl. 14:15

2 Smámynd: Hörður Þormar

Árið 1994 afhenti Úkraína Rússum öll kjarnavopn sín gegn loforði um að landamæri ríkjanna væru virt. Rússar hundsuðu þessi loforð árið 2014 með því að hertaka og innlima Krímskaga. Auk þess stóðu þeir á bak við uppreisn og hernaðarátök í austurhéruðum Úkraínu sem hafa kostað þúsundir mannslífa.

Þann 24. feb. síðastl. gerðu Rússaar innrás í Úkraínu með svo hryllilegum afleiðingum að þvílíkt hefur ekki sést í Evrópu frá síðari heimsstyrjöld.

Er það bara í lagi að "stórveldi" leggi nágrannaríki undir sig með ofbeldi, manndrápum og eyðileggingum og komist upp með það? Er þetta framtíðin?

Þeir eru til, jafnvel á Íslandi, sem verja þessa innrás á sambærilegan hátt og innrás Hitlers í Pólland haustið 1939. Aðrir halda því fram að vestrænir vopnaframleiðendur beri ábyrgð á henni.

Enginn veit hvernig þessu stríði muni ljúka, en það mun hafa ófyrirsjáanleg og ill áhrif á allan heiminn.

En nú virðist farið að hlakka í ýmsum, í voninni um að Evrópa og vesturlönd öll muni hljóti skaða af, ef Rússar vinna þetta stríð.

Er ekki eitthvað að hjá þessu fólki?

Hörður Þormar, 26.5.2022 kl. 17:27

3 Smámynd: Hörður Þormar

Sómamaðurinn, Henry Kissinger (Heinz Alfred Kissinger) er fæddur 23. maí 1923. Hann fagnar því 99 ára afmæli í dag.

Kissinger er fæddur í Þýskalandi og er af gyðingaættum. Hefði fjölskyldan ekki yfirgefið Þýskaland 1938 og fluttst til Bandaríkjanna, þá væri hann sennilega bara "svolítil mold undir sverðinum grænum".

Kissinger er friðarins maður, hann kom á sambandi á milli Bandaríkjanna og Kína og hlaut fyrir það friðarverðlaun Nóbels.

Í nýlegu viðtali sagði Kissinger að ekki hefði verið hægt að taka Kínverja og Sovétríkin sömu tökum. Hann óttast með réttu að stríðið í Úkraínu leiði til þess að Rússar muni muni einangrast frá vesturlöndum og verða háðir Kínverjum. Til þess að koma í veg fyrir það, þá verði á ná samkomulagi við Rússa um Úkraínu.

Með djúpri virðingu fyrir Henry Kissinger þá verð ég að segja að þar er ég honum ekki sammála. Það er ekki hægt að taka Sovétríkin og Rússland Pútíns sömu tökum. Pútín og Hitler eru miklu frekar sömu gerðar og þá verður að taka svipuðum tökum, þar gildir bara harkan. Þetta sá Otto von Habsburg sem þekkti nokkuð til beggja og varaði eindregið við Pútin árið 2003, þá kominn yfir nýrætt.

Kannski er það bara óskhyggja, en sem betur fer þá er til margt frjálslynt og hugrakkt fólk í Rússlandi og vonandi fer rússneskur almenningur að gera sér grein fyrir því hvers konar forarfen Pútín hefur leitt þjóðina út í. Það hlýtur því að vera forgangsmál að koma Pútín og hyski hans frá völdum, án þess að rússneska þjóðin sé niðurlægð eða hrakin í fang Kínverja, það væri henni ekki til gæfu. 

Hörður Þormar, 27.5.2022 kl. 01:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband