Sunnudagur, 17. apríl 2022
Hjólað gegn Pútín - vesturlönd ein á báti
Ekki nota bílinn heldur hjólið, þá tapar Pútín, er boðskapur þýskra stjórnvalda til almennings. Þjóðverjar eru háðir rússneskri orku, gasi og olíu, og geta illa haldið efnahagsvélinni gangandi án hennar.
Evrópa er á leið í kreppu, Bandaríkin sömuleiðis, vegna efnahagsþvingana sem vesturlönd beita Rússland í Úkraínustríðinu.
Vestræna röksemdin fyrir að refsa Rússum er að með innrásinni hafi alþjóðalög verið brotin. Ef Rússar komast upp með athæfið riðar alþjóðakerfið til falls.
En nú ber svo við að mörg ríki á suðurhveli jarðar, t.d. í Suður-Ameríku, Afríku og Asíu, Indland þar stærst, kaupa ekki röksemd vesturlanda.
Tvær meginástæður eru fyrir því að lönd suðurhvelsins eru treg til að fórna samskiptum við Rússland, segir bandarískur stjórnmálafræðingur, Trita Parsi. Í fyrsta lagi vegna þess að Bandaríkin og vesturlönd hafa lítt virt alþjóðalög þegar þeim hentar, s.s. með innrás í Írak og stjórnarskiptum í Líbýu og tilraun til þess í Sýrlandi. Í öðru lagi finnst suðurhvelinu ekki heppilegt að búa í einpóla heimi þar sem Bandaríkin ráða ein ferðinni. Suðurhvelinu líður betur ef ríki eins og Rússland og Kína standi upp í hárinu á einveldi Bandaríkjanna.
Bandaríkin steyptu af stóli Hussein í Írak og Gadaffi í Líbýu. Assad í Sýrlandi átti að fara sömu leið en Pútín bjargaði honum. Ríki á suðurhveli jarðar horfðu upp á þessar aðfarir og drógu þann lærdóm af að óhollt sé að Bandaríkin séu einráð. Mótvægi er æskilegt og það heitir Pútín. Af þessu leiðir fá Bandaríkin og vesturlönd lítinn stuðning sunnan miðbaugs við refsiaðgerðir gegn Rússland. Þetta enn eitt Evrópustríðið, segja menn þar syðra.
Illu heilli eru ekki líkur að Úkraínustríðinu ljúki í bráð. John Mearsheimer, sem greinir deiluna af mestri skynsemi, er ekki bjartsýnn á að menn finni pólitíska lausn á næstunni.
Á meðan ekki finnst diplómatísk lausn heldur hryllingurinn í Evrópu áfram. Manntjónið hleypur á tugum þúsunda. Rússar segja Úkraínumenn hafa misst yfir 20 þúsund hermenn. Stjórnvöld í Kænugarði telja sig hafa vegið álíka marga Rússa. Þá er ótalinn dauði óbreyttra borgara. Flóttamenn eru taldir í milljónum og eignatjón er gífurlegt.
Sorglegt.
Þjóðverjar hvattir til að spara orkugjafa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú getur þetta Páll þegar þú vilt.
Í því felst styrkur þinn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.4.2022 kl. 13:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.