Miðvikudagur, 30. mars 2022
Nató felur veikleika ESB
Nató er gangandi lík, segir bandaríski ofurstinn Douglas Macgregor sem starfaði í höfuðstöðvum hernaðarbandalagsins i Brussel. Þegar Sovétríkin féllu átti að leggja Nató niður, segir sá bandaríski.
Macgregor er ekki í náðinni hjá Biden-stjórninni, svo það sé sagt. Hann fékk framgang hjá Trump en varð hornkerling með sigri Biden.
Nató var ekki lagt niður eftir kalda stríðið af þrem ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að stofnanir eru með innbyggða seiglu til að standa af sér breyttar aðstæður. Aðrar tvær ástæður eru þó veigameiri. Evrópusambandið þarf ekki að koma sér upp sameiginlegum her á meðan Nató nýtur við. Í þriðja lagi er Nató ankeri Bandaríkjanna í Evrópu og hefur verið frá stofnun. Bandarískur hershöfðingi er ávallt æðsti yfirmaðurinn. Frá gamalli tíð er Vestur-Evrópa miðlæg í utanríkisstefu Bandaríkjanna. Aftur er Úkraína í Austur-Evrópu og sem slík ekki bandarískt forgangsmál.
Vilji er til að stofna Evrópuher. En sá vilji er daufur og deyfðist enn með inngöngu Austur-Evrópuríkja eins og Póllands og Ungverjalands. Brexit 2016 útilokar aðild Breta að hugsanlegum Evrópuher. Nató höktir áfram sem linkulegur hernaðararmur Evrópusambandsins. Nató er nógu öflugt til að ógna en býr ekki að umtalsverðri stríðsgetu.
Útþenslu ESB inn í Austur-Evrópu fylgdi Nató-aðild nýrra ESB-ríkja. Á meðan Rússland var veikt þurfti ekki að spyrja hvað valdhöfum í Moskvu fannst um að óvinveitt hernaðarbandalag kæmi sér upp herstöðvum á vesturlandamærunum. En frá 2007/2008, með ræðu Pútíns i Munchen og innrás Rússa í Georgíu, sem hafði, líkt og Úkraínu, verið boðin Nató-aðild er stefnubreyting í Moskvu.
Úkraínustríðið er afleiðing af pólitísku dómgreindarleysi. Brussel, þ.e. höfuðstöðvar Nató og ESB, hélt að vestræn útþensla ætti sér engin takmörk. Moskva sagði skýrt og ákveðið frá 2007/2008 að óásættanlegt væri að Úkraína og Georgía yrðu Nató-ríki. Í 14 ár var hægt að finna diplómatíska lausn.
Eftir að stríð braust út, fyrir rúmum mánuði, voru veikleikar ESB og Nató afhjúpaðir. Yfirþyrmandi samúð með Úkraínu skilaði sér ekki í hernaðaraðstoð. ESB og Nató vildu Úkraínu í bandalag með sér en ekki deyja fyrir málstaðinn. Rússar eru aftur tilbúnir að deyja fyrir sína tilvist. Úkraína sem Nató-ríki ógnar tilvist Rússlands.
Nató þarf óvin til að þrífast þótt ekki sé bandalagið til stórræðanna þegar á hólminn er komið. Stríðsviljug öfl innan bandalagsins blása í glæður ófriðarbálsins. Bandaríkin og Bretland eru herská, friðarviljinn er meiri í París og Berlín. Í fyrra og seinna stríði var barist í Frakklandi og Þýskalandi en ekki Englandi og Bandaríkjunum. Minningar um stríð sitja í kynslóðum.
Fréttir af friðarsamningum í Tyrklandi milli Úkraínu og Rússa vekja vonir. Líkt og í öllum stríðum eru það almennir borgarar sem gjalda með lífi og eignum fyrir dómgreindarleysi valdamanna.
Úkraínumönnum blæðir fyrst og fremst og Rússar fórna hermönnum. Frændþjóðirnar þurfa að finna leið til að lifa í sátt utan hernaðarbandalaga. Á meðan þær sitja við samningaborðið er von um frið. Stríð eiga það til að gera annað tveggja, brýna dómgreind eða ala á öfgum. Það má vera bjartsýnn og trúa að dómgreindin hafi betur en öfgarnar. En friður verður frændþjóðunum dýrkeyptur. Framhald stríðsátaka þarf að þykja báðum verri kostur en samningar. Þar liggur vonin.
Viðræðurnar í dag marki stórt framfaraskref | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.