Veðkall á fullveldi, Guðni Th. og Ólafur Ragnar

Eðli stórvelda er að óttast að næstu nágrannar hlaupi út undan sér og geri bandalag við annað stórveldi. Nágrannar stórvelda læra að lifa með landfræðilegri stöðu sinni, sem vanalega gengur út á að styggja ekki ofurvaldið..

Ef útaf bregður, t.d. hjá Kastró á Kúbu fyrir 60 árum, er ekki von á góðu. Viðskiptaþvinganir sem Bandaríkin settu á Kúbu eru enn að mestu í gildi. Finnar fengu leyfi Leníns fyrir 100 árum að stofna lýðveldi. Stalín, eftirmaður Leníns, taldi tveim áratugum síðar að finnskt landssvæði stæði Leníngrad/Pétursborg fyrir þrifum. Úr varð vetrarstríðið. Finnar misstu land og freistuðu þess að lifa af kalda stríðið með sérstakri tillitssemi gagnvart Sovétríkjunum.

Finnlandisering er það kallað að halda fullveldinu en nota það ekki til að grafa undan nágrannanum, stórveldinu. Sumir halda að Finnar séu á leið í Nató. Sagan segir það ólíklegt.

Úkraína var á leið í Nató, fékk formlegt boð með Búkarest-yfirlýsingunni 2008. Ekki eru líkur á að landið verði á næstunni Nató-ríki. Meiri líkur en minni er að Úkraína Finnlandiserist og missi töluvert landssvæði. Lögmál stórvelda láta ekki að sér hæða.

Ísland er fullvalda ríki og hefur þjóðréttarlega heimild til að bjóða erlendum ríkjum til ráðstöfunar íslenskt landssvæði. En dettur einhverjum í hug að Washington og London myndu láta það átölulaust að Íslendingar leyfðu Rússum að byggja flotahöfn í Finnafirði? Eða Kínverjum? Harla ólíklegt. 

Landfræðileg lega þjóðríkja ræður hver á veðkall á þau. Bretar eiga veðkall á Írland, sem getur ekki gengið í hvaða bandalag sem vera skal án breskra afskipta. Þjóðverjar litu það óhýrum augum ef Danir lánuðu Jótlandsheiðar undir rússneska herstöð. Bandaríkin myndu aldrei samþykkja að Kanada eða Mexíkó hýstu rússneska eða kínverska heri.

Eftirfarandi setning er höfð eftir Guðna Th. forseta í viðtengdri frétt: ,,Sjálf­stæði og full­veldi ríkja má ekki skerðast við það að þau eigi landa­mæri að hernaðar­veldi." Dálítið bernskt. Ekki síst frá manni sem sterklega er grunaður um að vilja framselja fullveldi Íslands til Brussel. En Evrópusambandið á ekkert veðkall á Ísland. Spyrjið bara Ólaf Ragnar Grímsson.

 


mbl.is Guðni vill ekki tjá sig um orð Ólafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Dæmin eru svo ótal mörg eins og nefnir þú þó ekki ríkin sem Kína leggur eign sína á. Samt fellur jafnvel sagnfræðingurinn á Bessastöðum á prófinu. Veldi tilfinninganna heltekur vestrænan heim; líf manna ýmist metið óbætanlegt eða verðlaust. Og í þeirri verðsamkeppni lendir Yuri Gagarin á ruslahaug sögunnar. 

Ragnhildur Kolka, 23.3.2022 kl. 08:30

2 Smámynd: Skeggi Skaftason

OG samkvæmt kenningum ykkar realistanna hefðu þá Finnar auðvitað alls ekki átt að grípa til varna í Vetrarstríðinu heldur viðurkenna "veðkall" Rússa og leyfa þeim að ráðskast með sig. Sem hefði þá auðvitað þýtt að þeir hefðu lent hinum megin járntjalds og væru önnur þjóð en í dag.

Skeggi Skaftason, 23.3.2022 kl. 09:41

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það blés ekki byrlega fyrir Finnum 1945 eftir að hafa beðið tvisvar í röð ósigur fyrir Rússum. Í stjórnarskrá Íslands er ákvæði um að íslensk landsvæði megi aldrei láta af hendi og svipað háttar til um stjórnarskrár fullvalda ríkja. 

Kröfur Rússa 1939 fólu ekki í sér kröfu um að Finnaland lenti "austan járntjalds" þótt þeir yrðu háðir Rússum, ekkert frekar en hjá Lenin 1917. 

Ómar Ragnarsson, 23.3.2022 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband