Fimmtudagur, 10. mars 2022
Hatur og hernaður
Hernaður er ekki útrás fyrir hatur, allra síst hjá skipulögðu ríkisvaldi. Hernaður er stundum tækifærismennska, þannig byrjaði fyrra stríð, eða framkvæmd á hugmyndafræði. Þjóðverjar vildu lífsrými í austri og hófu seinna stríð á þeirri forsendu. Hugmyndafræði var ástæða aðildar Bandaríkjanna að stríðsátökum í Víetnam - og raunar mörgum öðrum.
Í sögulegu samhengi eru hvorki tækifærismennska né hugmyndafræði helstu ástæður stríðsátaka ríkja. Meginástæða hernaðar er ógn. Sparta hóf Pelópsskagastríðið er þeim stóð ógn af vaxandi veldi Aþenu. Rómverjar óttuðust Karþagó, stríddu við þá í þrígang, og eyddu loks afríska borgríkinu.
Rússum stendur ógn af útþenslu Nató eftir lok kalda stríðsins. Fyrrum bandalagsríki Rússa úr Varsjárbandalaginu fóru eitt af öðru inn í Nató sem er stefnt gegn Rússum. Ef svo væri ekki hefði Rússlandi verið boðin aðild fyrir lifandi löngu. Hernaðarbandalag er samkvæmt skilgreiningu verkfæri til stríðsátaka, bæði til varnar og sóknar.
Rússar gerðu skýra grein fyrir afstöðu sinni 2014 eftir stjórnarbyltingu í Kænugarði. Þeir tóku Krímskaga og efndu til uppreisnar í austurhéruðum landsins. Síðan eru liðin átta ár. Nægur tími til að finna diplómatíska lausn. Málamiðlun er sefaði ótta Rússa og virti úkraínskt fullveldi virtist ekki flókið viðfangsefni. En það var frændþjóðunum ofraun.
Stríð er framhald stjórnmála, er sígild speki ættuð frá Þjóðverjanum Carl von Clausewitz sem lærði sín fræði í Napóleonsstríðum fyrir 200 árum. Markmið hernaðar, sagði sá þýski, er að beygja andstæðinginn undir vilja sinn. Stjórnmál eru æfing í málamiðlun en hernaður prófsteinn á viljastyrk og getu til að heyja stríð.
Hatur kemur til sögunnar eftir að stríðsátök brjótast út. Lygin líka. Frumhvatirnar leika lausum hala þegar um líf og dauða er að tefla. Í stríði fer siðmenningin ofan í skúffu. Þess vegna viljum helst ekki hernað.
Er að verða til nýtt tákn haturs með zetunni? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góð grein. Rétt athugað. Hvaða mann hver hefur að geyma kemur einmitt fram í stríði.
Birgir Loftsson, 10.3.2022 kl. 09:47
Óvenju málefnaleg grein frá þér Páll.
En þegar þú segir "Rússum stendur ógn af útþenslu Nató eftir lok kalda stríðsins" ertu að setja þetta fram sem staðreynd eða þína skoðun?
Er ekki réttara að segja 'Rússneska herveldið *telur* sig standa ógn af útþensu NATÓ' ?
Sl. 20 ár hefur akkúrat enginn talið hættu á árásum frá NATÓ-ríkjunum Póllandi, Tékklandi Eistlandi o.fl. á Rússland.
Eða mætti jafnvel öllu frekar segja 'rússneska herveldið telur að útþensla NATÓ dragi úr valdi sínu og stjórnmálalegu/hernaðarlegu/efnahagslegu áhrifasvæði sínu?
Skeggi Skaftason, 10.3.2022 kl. 10:26
Ertu Skeggi minn þess um kominn að leiðrétta stíl höfundar,varla vænurðu hann um að láta setja sér fyrir um efni. Kominn í lið með NATO og upphafning þegar hafinn.
Helga Kristjánsdóttir, 10.3.2022 kl. 14:29
Helga - ég er að tala um efni en ekki stíl. Lestu betur.
Skeggi Skaftason, 10.3.2022 kl. 15:46
Verð að bíta í það súra epli að vera sammála Skeggja í hans athugasemd.
Þá skautar höfundur yfir þá staðreynd að engu ríki er boðin aðild að NATO. Sjálfstæð ríki geta hins vegar sótt um aðild og er þá sú umsókn metin. Úkraína hefur vissulega talað um aðildarumsókn í varnarbandalagið og ljóst að þeir voru þar ekki að gera það "af því bara". Þeim stóð sannarlega ógn úr austri, eins og í ljós hefur komið.
Ekki er vitað til að Rússland hafi sótt um aðild að NATO, en vel er hugsanlegt að slík aðild hefði verið samþykkt. Það vitum við bara ekki.
Gunnar Heiðarsson, 10.3.2022 kl. 16:05
Önnur málsgrein mín segir nú allt um það.Ég var fjandi góð í íslensku,verð þó að játa að setningafræðin er leiðinleg en kemst upp með það.
Helga Kristjánsdóttir, 10.3.2022 kl. 17:13
Slagorð Hitlers var: "Aldrei aftur 1918" og hataðist hann við þá þýsku "svikara" sem samið hefðu smánarlega um uppgjöf 1918 án þess að óvinirnir hefðu neins staðar komist inn fyrir landamæri Þýskaland.
Aldinn kafbátamaður af kafbátnum, sem sökkti Goðafossi, sem Jón Ársæll Þórðarson ræddi við, réttlætti stríðið með því að hefna hefði þurft fyrir það að Þýskaland hefði verið butað í tvennt með miklum landamissi 1918.
Þekkt er fyrirbrigðið "Russophobia" hjá Pólverjum, sem ég kynntist óvart rækilega þegar ég sýndi hann rússeskan bíl, sem ég átti.
Skelfilegt hatur Hitlers á Gyðingum þarf ekki að rekja.
Öldruð rússnesk kona, sem ég hitti að máli í bænum Demyansk í Valdaihæðum norðvestur af Moskvu í mars 2006 vegna heimildarrits um innilokun 100 þúsund þýskra hermanna þar januar-maí 1942, var innt eftir því hvort stríðið þarna hefði verið eins hrikalega miklu grimmilegra þar en á öðrum vígstöðvum og víða hefur verið lýst.
Hún sagði, að auðvitað hefðu verið hæettulegir villimenn í þýska liðinu, en þó ekki fleiri en gengi og gerðist í herjum, enda þessir kornungu menn komnir á algerlega ókunnar slóðir úti í víðáttum rússneska vetrarins, án þess að hafa hugmynd um hversvegna.
"En það voru Finnar í innrásrhernum sem við þurftum að óttast sérstaklega vegna grimmdar", sagði sú gamla.
Þetta var slándi fyrir Norðurlandabúa að heyra þetta, gátu Norðurlandabúar verið svona grimmir. Eftir á var við nánari skoðun hægt að sjá, hvers vegna.
Árið áður höfðu Rússar ráðist á Finna í Vetrarstríðinu svonefnda, og þess töldu Finnarnir sig þurfa að hefna.
Í Balkanstríðunum fyrir síðustu aldamót vakti athygli hin mikla hatursgrimmd , sem þar var sýnd til að hefna atburða frá því allt að sjö hundruð árum fyrr.
Og mikið hatur sést oft í vopnuðum átökum Ísraelsmanna og Palestínumanna.
Ómar Ragnarsson, 10.3.2022 kl. 19:44
Að öllum heimspekiþönkum um stríð slepptum, hefðu allir gottaf að skoða heimildarmynd Oliver Stone um forsögu þessara átaka. Flestir muna það kannski en eru blindaðir af stanslausum áróðri og tilfinningaklámi.
https://youtu.be/J2THDH-quyg
Jón Steinar Ragnarsson, 11.3.2022 kl. 00:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.