Þriðjudagur, 11. janúar 2022
Hvítir í minnihlutapólitík
Minnihlutahópar skilgreindir út frá hörundslit, trú og kynhneigð móta pólitíska umræðu á vesturlöndum síðustu áratugi. Hóparnir tóku hugmyndir hvítra miðaldra karla frá 18. og 19. öld um frjálslynt einstaklingsfrelsi og splæstu við valkvæða túlkun á ofbeldi hvíta feðraveldisins. Útkoman er alþjóðleg ,,woke" útilokunarmenning sem tröllríður húsum, fáum til skemmtunar en flestum til ama.
Í viðtengdri frétt, skrifuð af blaðamanni sem þekkir frönsk stjórnmál, segir að háborg alþjóðahyggjunnar í Evrópu, sjálft ESB, liggi undir stórskotahríð forsetaframbjóðenda í Frakklandi. Frambjóðendurnir eru hvítir síðmiðaldra og tónninn er að minnihlutahóparnir hafi stolið af Frökkum sjálfri þjóðmenningunni.
Þjóðmenningu rekja Frakkar til Kloðvíks á fimmtu öld eftir Krist. Hún er öllu eldri en hugmyndir síðustu 200 ára um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Þjóðmenningin er meginland, lýðræði rekís.
Á meðan nýlendustefna var fullframinn glæpur á 19. öld og entist fram yfir miðja síðustu öld er stuldurinn á þjóðmenningunni í beinni útsendingu. Hér og nú er brýnna en skömm á því liðna.
Hvítir tileinka sér í óða önn pólitík minnihlutahópanna að verði ekki hart brugðist við með róttækum aðgerðum fari þjóðmenningin í hundana og með henni samfélagið.
Herskáir hvítir telja sér ógnað af bandalagi minnihlutahópa og eru til alls vísir. Þeir leita tæplega lýðræðislegra lausna á fjölmenningunni. Lýðræðið er málamiðlunin sem mistókst.
Í frumbernsku vestræns lýðræðis kölluðu Forn-Grikkir sérstaka menn til verka þegar í óefni var komið með samlífið í borgríkinu. Þeir kölluðu þá týranna. Sniðmát samtímans byrjar á sama bókstaf - T.
Sameinast um að tala bara um sundrung | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ragnhildur Kolka, 11.1.2022 kl. 11:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.