Laugardagur, 13. nóvember 2021
Heiður RÚV og glæpurinn gegn Páli skipstjóra
Aðalsteinn Kjartansson hætti fyrirvaralaust á RÚV föstudaginn 30. apríl síðast liðinn. Aðalsteinn var hægri hönd Helga Seljan í Namibíumálinu gegn Samherja sem hófst með Kveiks-þætti þeirra félaga fyrir tveim árum.
Þegar Aðalsteinn hætti var RÚV, fréttaskýringaþátturinn Kveikur sérstaklega, í sárum. Tveim vikum áður hafði Helga Seljan verið synjað um endurupptöku á úrskurði siðanefndar RÚV um að Helgi hefði brotið alvarlega gegn siðareglum. Aðalsteinn sýndi ekki mikla hollustu að yfirgefa sökkvandi skip. En annað bjó að baki. RÚV hafði fundið leið til að rétta hlut sinn eftir niðurlægingu siðadómsins. Aðgerðin fól í sér lögbrot.
Aðalsteinn gefur loðin svör í viðtali daginn sem hann hættir, talar um ,,persónulegar ástæður" og segist á leiðinni í frí. En strax síðdegis sama dag er Aðalsteinn sagður kominn á ritstjórn Stundarinnar sem gefur út sérstaka tilkynningu. Bráðnauðsynlegt þótti að vistaskiptin yrðu gerð opinber fyrir helgina.
Á Stundinni vinnur Aðalsteinn með stolin gögn úr síma Páls Steingrímssonar skipstjóra Samherja. Tveim vikum síðar fellur sprengjan: Stundin afhjúpar skæruliðadeild Samherja.
Grein Aðalsteins, og framhaldsfréttir í Kjarnanum og RÚV, tryggðu Helga Seljan, Aðalsteini og RÚV fjölmiðlasigur í Samherjamálinu. Norðlenska útgerðin lyppaðist niður og baðst afsökunar.
En það er einn hængur á. Fjölmiðlasigurinn fékkst með glæpsamlegu athæfi, gagnaþjófnaði. RÚV sýndi ásetning og einbeittan brotavilja í þjófnaði sem var fyrirfram skipulagður og beindist að sjúklingi er enga björg gat sér veitt.
Síma Páls skipstjóra var stolið aðfaranótt 4. maí, fjórum dögum eftir að Aðalsteinn skipti skyndilega um starfsstöð, af RÚV yfir á Stundina. RÚV vissi um glæpinn áður en hann var framinn. Aðalsteinn varð að hætta á föstudegi því eftir helgina átti að stela síma Páls skipstjóra á meðan hann lá ósjálfbjarga á sjúkrahúsi. Það hefði vakið grunsemdir ef Aðalsteinn hefði vistaskipti til að vinna með gögnin eftir fullframinn glæp. RÚV-arar héldu sig hafa leikið snilldarleik með því að selflytja Aðalstein yfir á Stundina kortéri fyrir skipulagðan símaþjófnað. Skyndiflutningur á fréttamanni að vinna með gögn sem enn er ekki búið að stela staðfestir á hinn bóginn aðild RÚV að þjófnaði. Dýr er æran á Efstaleiti.
RÚV var með siðadóm á bakinu, gat sig illa hrært. Helgi Seljan var í veikindaleyfi að leika fórnarlamb. Aðalsteinn er gerður út af örkinni á Efstaleiti, fer yfir á Stundina þar sem Ingibjörg Dögg systir hans og Jón Trausti mágur eru fyrir á fleti, sem eigendur og ritstjórar. Lokaður hópur örfárra einstaklinga vélaði um í kyrrþey. Ekkert mátti fréttast fyrr en afhjúpun byggð á þjófnaði yrði tilbúin til birtingar. Uppreist æru RÚV fékkst aðeins með niðurlægingu Samherja.
RÚV vissi að til stæði að fremja glæp og Stundin er meðsek. Opin spurning er hvort starfsmenn RÚV skipulögðu sjálfir glæpinn eða létu aðra um verknaðinn. Lögreglurannsókn sem stendur yfir gæti varpað ljósi á málsatvik.
Einu sinni afhjúpuðu fjölmiðlar afbrot. Á Efstaleiti stunda menn glæpi og kalla það fjölmiðlun.
Athugasemdir
Skandall sem þessi lagði að velli News of the world Murdocs. Þetta tröllreið fréttum frá bretlandi allt frá 2005.
Að stela síma er jafngilt því að brjótast inn í síma og ættu viðurlögin að vera sömu og í nágrannalöndunum. Ef ekki þá væri þetta versta áfall fyrir persónuvernd og einstaklingsfrelsi í sögunni hér og gárurnar af því myndu seint hjaðna.
Spurning hvort gerendur vilji kalla slíkt yfir sjálfa sig.
Jón Steinar Ragnarsson, 13.11.2021 kl. 09:49
Sæll Páll,
Athyglisverð grein hjá þér og svo virðist enn og aftur að besta lesefnið er á bloggum landsmanna frekar en hjá hinum ríkisstyrktu fjölmiðlum þar sem grunnhyggið efni er matreitt á disk landsmanna.
Það eru fleiri að stela símum en á Íslandi:
- Project Veritas sues the NYT.
- The FBI raids O’Keefe’s home.
- NYT knows about raid immediately.
- FBI steals O’Keefe’s reporter notes.
- NYT publishes what his notes were.
https://www.youtube.com/watch?v=SvezjUoRHPM
Þröstur R., 13.11.2021 kl. 11:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.