Sunnudagur, 31. október 2021
Má bjóða þér að bilast?
Blaðamaður sér blogg eða fésbókarfærslu og giskar á að hér gæti orðið feit frétt er yrði víða deilt og fengi mörg ,,læk". Hann smellir færslunni á Facebookvegginn sinn til að kanna viðbrögð. Fái hann þau skrifar tvær til fjórar raðfréttir um voðalegt þetta eða voðalegt hitt. Þægileg innivinna að vekja upp hneyksli.
Smáfjölmiðill setur frétt á Facebookvegg miðilsins eða kaupir auglýsingu og spyr: hvað segja lesendur um þetta?
Annar smáfjölmiðill segir reglulega í fyrirsögnum að einhver ,,hjóli í" einhvern annan eða ,,hrauni yfir".
Lesendur fá reglulega tilboð um að brjálast yfir einhverju. Tilboðsgjafar eru iðulega litlir eða stórir fjölmiðlar sem þrífast á athygli sem mæld er með smellum, þ.e. þegar einhver opnar fréttina, en einnig ,,lækum", deilingum og fjölda athugasemda.
Reiðiviðbrögð eru sterkari og hvetja fremur til aðgerða en önnur. Sá sem lætur sér fátt um finnast, er sáttur og telur lífið almennt ljúft og laglegt er ekki líklegur til athafna. Reiða fólkið er aftur sívökult eftir átyllu að láta að sér kveða og gerast virkt í athugasemdakerfum.
Hneykslunarmiðlun þrífst á reiðiöldum á fjöl- og samfélagsmiðlum. Það bæði gefur í aðra hönd að skipuleggja fár á félagsmiðlum og valdeflir pólitískan málstað. Óformlegt bandalag, e.t.v. skipulagt á bakvið tjöldin í sumum tilfellum, er á milli félagsmiðla og stjórnmálaafla.
Jæja-hópurinn, sem skipulagði mótmæli á Austurvelli, er með heimilisfestu í Sósíalistaflokknum. Píratar eru með á sínum snærum Transparency International sem gefur út skýrslur um spillingu á Ísland mátulega fyrir kosningar. Stundin er hliðarmiðill Pírata. Svo er það auðvitað RÚV, móðurstöð upphlaups- og spillingarumræðu vinstrimanna. Botninn datt úr kosningabaráttu Pírata og Samfylkingar þegar Namibíumálið koðnaði niður á Efstaleiti.
,,Má bjóða þér að bilast?" er samtvinnað fyrirbæri félagsmiðla og stjórnmálaafla. Fyrirbærið nærist á tortryggni, vantrausti og einkum þó reiði sem verður því heiftugri sem hún er þrungnari heilagri vandlætingu.
Stafrænn fasismi hlustar ekki á rök en krefst aðgerða. En bæði i einkalífi og opinberu lífi gildir að ákvarðanir í reiðikasti eru heldur síðri en þær sem teknar eru af yfirlögðu ráði.
Athugasemdir
Þú ættir að renna yfir þessa grein eftir ungan ástralskan lögfræðing, sem ég rakst á um daginn, og fjallar um eftirlitskapítalismann. https://www.linkedin.com/posts/inoke-faletau-55bb96153_is-this-the-end-of-democracy-activity-6859067364571525120-ESzO
Þorsteinn Siglaugsson, 31.10.2021 kl. 23:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.