Laugardagur, 21. ágúst 2021
Frægustu ummæli Styrmis - samhengið
Styrmir Gunnarsson er allur. Hann er af kaldastríðskynslóðinni, ólst upp og tók út þroska þegar heiminum var skipt í austur og vestur, kommúnisma og borgaralegt samfélag, rangt og rétt.
Í tvípóla heimi er lítið gráa svæðið milli svarts og hvíts. Maður er réttu megin í pólitísku tilverunni eða á röngunni. Leikreglur samfélagsins taka mið af því.
Styrmir hringdi í mig þegar ég starfaði á Vikublaðinu, sem Alþýðubandalagið gaf út. Þetta hefur verið um 1994. Við þekktumst ekkert. Ég hafði fjallað um fréttaflutning Morgunblaðsins og m.a. hringt í blaðamenn þar að spyrja um viðbrögð. Styrmir var allt annað en kátur. Það var ekki hluti af leikreglunum að blaðamenn skrifuðu fréttir um blaðamennsku - og allra síst blaðamennsku á öðrum fjölmiðlum. Ég var ósammála. Ég punktaði niður hjá mér eftir Styrmi: það sem stendur í Morgunblaðinu, það stendur, það sem stendur ekki í Morgunblaðinu, það stendur ekki. Þetta var útgáfa Styrmis af slagorði New York Times; all the news that is fit to print. Leikreglur sem sagt.
Ekki löngu síðar bauð Styrmir mér í kaffi og sýndi mér Moggasetrið við Kringluna. Mögulega naut ég þar eiginkonunnar sem var blaðamaður hjá Styrmi í áratugi. En þegar ég falaði starf hjá Styrmi tveim eða þrem árum síðar fékk ég vinsamlegt afsvar. Menn eru á réttunni eða röngunni.
Um áratug síðar og litlu betur hitti ég Styrmi nokkrum sinnum á vettvangi Heimssýnar, félags andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Styrmir hætti sem ritstjóri Morgunblaðsins sumarið 2008. Hann og Björn Bjarnason ráku um þetta leyti Evrópuvefinn sem var mikilsvert framlag til umræðunnar. Björn og Styrmir komu á fámenna spjallfundi. Styrmir þó oftar enda nákunnugur formanninum, Ragnar Arnalds.
Á þessum fundum Heimssýnar heyrði ég fyrstu drögin að ummælum sem Styrmir varð frægastur fyrir. Þessi ummæli hafa verið sett í allt annað samhengi en Styrmir ætlaði. Í mín eyru talaði Styrmir um ,,ógeðslegt" þjóðfélag þegar hann bar saman samfélagið sem hann ólst upp í við það sem varð til um aldamótin og fékk viðurnefnið útrás.
Í Rannsóknaskýrslu alþingis eru orð Styrmis þessi:
Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.
Orðin hafa verið túlkuð þannig að hann sé að lýsa Íslandi frá 1960 til 2008. En því fer víðs fjarri. Styrmir var að bera saman Ísland kaldastríðsáranna við Útrásar-Ísland.
Kynslóðin sem mótaði Styrmi og jafnaldra hans er kennd við lýðveldið. Hann leit á sig sem merkisbera lýðveldiskynslóðarinnar í köldu stríði þar sem lýðveldið sjálft var í húfi.
Styrmir Gunnarsson látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er einmitt það
"ANNAÐHVORT eru
"Menn á réttunni eða röngunni".
Ég sem fyrrv.bloggari á mogga-blogginu hef t.d verið
á "röngunni" í augum mogga-bloggsins.
Þ.e. ekki geta gengið í takt með capitalinu.
Þess vegna er væntanlega ennþá lokað fyrir mitt moggablogg
og lokað fyrir mitt TJÁNINGARFRELSI:
https://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/#entry-2235376
----------------------------------------------------------------------
Þó að hann Styrmir hafi verið kenndur við hægri-stefnu
að þá var hann nú farinn að taka upp hanskann fyrir lítil-magnann á seinni árum.
Jón Þórhallsson, 21.8.2021 kl. 10:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.