Föstudagur, 13. ágúst 2021
Trójuhesturinn, 4 rit um upphaf og hrun siðmenningar
Takið vara á gjöfum Grikkja, er viðkvæði ættað frá stríðinu um Trójuborg sem Hómer gerði ódauðlegt í Ilíonskviðu. Tréhesturinn, sem var gjöfin viðsjárverða, kemur ekki við sögu í kviðunni um þá kappa Hektor og Akkilis, heldur í framhaldssögunni, Ódysseifskviðu.
Á eftir Biblíunni er Ilíonskviða mesta bókmenntaverk sögunnar. Egilssaga og Sturlunga eru í öruggu þriðja og fjórða sæti.
Ilíonskviða er stundum talið hreint bókmenntaverk, sem ekki var fest á blað fyrr en um 700 árum eftir meint Trójustríð. En þó virðist vaxandi tilhneiging að auka sannfræði kviðunnar, mínus auðvitað yfirgengilegum manndrápum Akkilisar sem fara í flokk með Agli er hóf drápin á barnaskólaaldri og linnti ekki fyrr en hann varð karlægur. Meintur fundur tréhestsins eykur áreiðanlega trú manna á kviðu Hómers.
Þrjú af þessum fjórum ritum, þ.e. Ilíonskviða, Egilssaga og Sturlunga segja frá endalokum siðmenningar. Meint Trójustríð er háð þegar siðmenning við austanvert Miðjarðarhaf hrynur, um 1200 fyrir Krist. Egilssaga er niðurlag víkingaaldar og Sturlunga er endaspretturinn á þjóðveldismenningunni. Söguefnin eru stór í harmleikjum.
Biblían á hinn bóginn er upphaf kristinnar siðmenningar. Í vestrænum menningarheimi er trúverðugleiki bókarinnar helgu á pari við Sturlungu sem er samtímaverk. Aðalhöfundur hennar, Sturla Þórðarson, tók þátt í stóratburðum eins og Örlygsstaðabardaga. Dóttir hans Ingibjörg rétt slapp úr Flugumýrarbrennu.
Harmsaga kristinnar menningar er sem sagt ekki enn skrifuð. Góðu heilli fyrir okkur.
Telja sig hafa fundið Trójuhestinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það var Kristnidómurinn sem gerði Evrópu að því sem hún varð.
Guðmundur Böðvarsson, 13.8.2021 kl. 10:16
Kristnir Evrópumenn byggðu á grunni Ásatrúarinnar og annarrar heiðni. Þeir áttu sína menningu, en henni má frekar þakka afrekin. Þaðan kom hetjulundin og landvinningakjarkurinn, sem nú er helzt til í Afganistan. Heiðinni evrópskri menningu má ekki gleyma. Margt af því var aldrei ritað eða eyðilagt af kristnum mönnum, en bjargaðist á Íslandi, aðallega Snorra Sturlusyni að þakka.
Nú er spurningin, verða landvinningamenn eins og talibanar næstu drottnarar Evrópu? Þeir sýna sömu karlmennsku og víkingar áður - og eyðileggingarfýsn með. Það er kristindómurinn sem rústaði evrópskri menningu, eða femínisminn sem var leyfður innan kristninnar.
Ingólfur Sigurðsson, 13.8.2021 kl. 14:39
Já klaufi eg að láta útsendara Glóbalista eða hverja aðra? þurrka út athugasemd mína.
Helga Kristjánsdóttir, 13.8.2021 kl. 16:05
Góðir Íslendingar! Takið vara á grikk-gjöfum óvina okkar.
Helga Kristjánsdóttir, 13.8.2021 kl. 16:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.