ESB-sósíalismi og Austur-Evrópa

Austur-Evrópa liggur á milli kjarnaríkja Evrópusambandsins, Frakklands og Þýskalands, annars vegar og hins vegar Rússlands.

Við lok kalda stríðsins hrúguðust Austur-Evrópuríki inn í Evrópusambandið til að slíta sig laus frá sovét-kommúnismanum. En þegar frá leið runnu tvær grímur á fyrrum undirokaðar þjóðir Sovétríkjanna.

Á daginn kom að ESB-sósíalisminn var ágengari en búist var við. Frá Brussel komu skilaboð um hvernig innanríkismálum skuli háttað, t.d. dómskerfum. Tilskipanir að taka við hælisleitendum frá Afríku og miðausturlöndum féllu í grýttan jarðveg þjóðríkja nýlega laus undan framandi hugmyndafræði. Til hvers að losna undan kommúnisma en í staðinn múslímavæðast?

Bæði Pólland og Ungverjaland eru langþreytt á afskiptasemi ESB og tilraunum að skapa Stór-Evrópu. Í fersku minni er hvernig fór fyrir draumnum um Stór-Þýskaland fyrir miðja síðustu öld.

Frá aldamótum hækkaði veldissól Evrópusambandsins. Nýr gjaldmiðill bar með sér væntingar um eitt efnahagskerfi. Brussel virtist ætla að verða þungamiðja nýrrar heimsskipunar alþjóðahyggju. Austur-Evrópa lét sér annt um ESB-aðildina til að verða ekki eftirbátur og  missa af framþróuninni sem virtist öll vestræn og merkt kratískum sósíalisma.

Þrír atburðir um miðjan síðasta áratug breyttu öllu um stöðu ESB, þótt hvorki Samfylking né Viðreisn skilja það enn hér heima á Fróni. Ekki beittustu hnífarnir í skúffunni að greina alþjóðamálin íslenskir hægri- og vinstrikratar.

Atburðirnir þrír eru Brexit, sigur Trump og þráteflið í Úkraínu. 

Brexit vængstýfði ESB, sýndi að fullvalda þjóð bæði getur og vill fara úr klúbbnum. Brexit afhjúpaði þá falssýn að ESB væri söguleg nauðsyn. Trump sagði Bandaríkin ekki ætla að fjármagna Nató til ánægju og yndis fyrir ESB og fagnaði Brexit. Bandaríkin í tíð Obama hjálpaði ESB, notaði til þess Nató, að færa Úkraínu undir áhrifasvæði Brussel-valdsins. Trump setti stopp á slíkar fyrirætlanir og Biden lyftir litla fingri í þágu útþenslu ESB. Trump er ekki lengur forseti en Washington hefur breytt um stefnu gagnvart ESB. Veldissól Brussel hnígur.

Austur-Evrópuþjóðir eru líklegar á næstu árum að finna sér tilvist á milli ESB og Rússlands. Um sinn verða þær áfram í ESB en munu tregast við að innleiða frjálslynda alþjóðahyggju. Rússland undir Pútín er ekki smituð af frjálslyndisöfgum um þrjú, fimm eða sjö kyn og ómenningu fjölmenningarinnar.

Sósíalísk alþjóðahyggja ESB rann sitt skeið fyrir hálfum áratug. Það eru þó ekki allir sem hafa kveikt á perunni.


mbl.is „Sá eini sem opnar kampavínið er Pútín“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband