Einvaldurinn í Namibíu: Samherji út, Ísfélagið inn

Jóhannes uppljóstrari Stefánsson stjórnaði Namibíu-verkefni Samherja þegar það hófst 2012 þangað til hann var rekinn 2016. Samkvæmt Namibíuskjölunum tóku Samherjamenn á Íslandi að ókyrrast fyrri hluta árs 2016 vegna misnotkunar Jóhannesar á áfengi og eiturlyfjum og tilheyrandi lausatökum á rekstrinum. Einvalds-Jóa var tekið að leiðast vistin í Namibíu og sendi lausafregnir til Íslands að stærri ævintýri biðu handan við hornið, í Suður-Afríku.

Drög að uppsagnabréf til Jóhannesar var skrifað í mars 2016 og fór á milli Samherjamanna í tölvupóstum, sem eru áfestir vitnisburði Örnu Bjarkar Baldvins McClure, lögfræðings Samherja. En þegar til átti að taka lögðu Samherjamenn ekki í það að reka Jóhannes þar sem hann var með alla þræði Namibíu-verkefnisins í hendi sér. Meðal annars sá Jóhannes nánast alfarið um samskipti við meðeigendur Samherja í Articnam Fishing, þar sem Samherji var minnihlutaeigandi með 49%. Án samþykkis Namibíumanna væri ekki hægt að reka guðspjallamanninn, afsakið, Jóhannes.

Þess í stað var gerður út af örkinni maður til að greina stöðu mála í Namibíu. Jón Óttar Ólafsson, hjálparhella Samherja í seðlabankamálinu, fór til Namibíu að safna upplýsingum. Fyrst um sinn hafði Jóhannes fullan fyrirvara á Jóni Óttari en með leikþáttum, t.d. að setja á svið ágreining við yfirmenn á Íslandi, tókst útsendaranum að vinna sér traust Jóhannesar. Í engu er getið hvort kumpánarnir drukku saman eða dópuðu.

Jón Óttar tók upp símtal við Jóhannes 14. júlí 2016 þar sem verðandi uppljóstrari sagðist ætla að slíta öll tengsl við Samherja og taka upp samvinnu við Ísfélagið og fá þá til að skaffa skip að veiða namibískan kvóta. Namibíumenn áttu kvótann og gátu framselt hann hverjum sem er, þess vegna Ísfélaginu. Enginn í Samherja, utan Jóhannesar, var í þeim samskiptum við namibísku meðeigendurna að auðvelt væri að sannfæra þá um framhald á samstarfi ef einvaldurinn vildi annað.  Á Íslandi var Þorsteinn Már forstjóri rifinn út af fundi með Færeyingum til að hlusta á upptöku Jóns Óttars. Namibíu-verkefnið var orðið brennandi hús. Brennuvargurinn var æðstráðandi norðlensku útgerðarinnar til sjós og lands þar syðra.

Í hasti var send þungavigtardeild Samherjamanna til Namibíu að afsetja einvaldinn og freista þess að bjarga því sem bjargað yrði. 

Af því hlaust nokkuð ves, eins og síðar kom á daginn. Einvaldurinn var kominn með knáan kongóskan atvinnuhermann sér við hlið, Christian Yema, sem vílaði ekki fyrir sér að hóta andstæðingum einvaldsins lífláti. Yema var á þessum tíma bæði fóstbróðir og viðskiptafélagi einvaldsins, segir í tveggja ára gamalli frétt Al Jazeera. Í málsskjölunum, aftur, vitnar Yema gegn Jóa fóstbróður. Til að bæta gráu ofan á svart fyrir Samherja reyndist Einvalds-Jói í samkrulli með meðeigendum Samherja sem voru í meirihluta í Articnam Fishing og sáu sér leik á borði þegar íslenski leiðtoginn var opinskátt orðinn uppreisnarmaður gegn húsbændum sínum. Í húfi var flaggskipið Heinaste en salan á því er undirþema dómsmálsins í Namibíu.

Litla Samherjaveldið í Afríku riðaði til falls.

(Meira síðar ef tilfallandi tími finnst til tilfallandi athugasemda um einvaldinn og samherja hagsmunahópsins á Efstaleiti. Um að gera að lesa sér til enda langt í jólabókarreyfarana. RÚV þegir auðvitað þunnu hljóði. Gögnin sýna stjörnuvitni RÚV gegn Samherja sem fremur ótrúverðuga heimild, svo vægt sé til orða tekið. Drottinn minn dýri, hugsaði tilfallandi höfundurinn við lestur málsgagna, hvað þeir á Efstaleiti eru blautir á bakvið eyrun. Fréttabörnin kalla sig rannsóknablaðamenn en þekkja ekki rugludall þótt hann sitji í fanginu á þeim. Hér er slóðin og málsnúmerið er: HC-MD-CIV-MOT-POCA-2020/00429)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Þór Emilsson

mér finnst þessi framvinda öllu meira sannfærand en það sem RUV sauð saman.

Emil Þór Emilsson, 11.6.2021 kl. 09:42

2 Smámynd: Emil Þór Emilsson

er þetta hluti af kosningabaráttu samfylkingar/pírata ?

Emil Þór Emilsson, 11.6.2021 kl. 09:45

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Emil Þór
S/P  eru allvega byrjuð að búa til kosningaloforðs myndbönd á okkar kostnað
Umbreyting á þjónustu í þágu borgarbúa (reykjavik.is)

Þarna í morgun lofuð þau hvort annað fram og til baka
í lokin birtist svo Dóra Björt með stafrænan geislabaug

Grímur Kjartansson, 11.6.2021 kl. 12:43

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Hatur Seljans á Samherja er áþreifanlegt.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 11.6.2021 kl. 12:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband