Fimmtudagur, 3. júní 2021
Hraunað yfir Umhverfisstofnun
Bráðum eru 3 mánuðir frá upphafi jarðeldanna við Grindavík. Ógrynni gróðurhúsalofttegunda dælist út í andrúmsloftið á hverri mínútu. Umhverfisstofnun, sem heldur bókhald um losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum, ýmist lýgur með þögninni eða blekkir, þegar kemur að áhrifum eldgossins.
Algengasta gróðurhúsalofttegundin er vatnsgufa, H2O. Í alfræðiritum segir að útblástur í dæmigerðu eldgosi sé 85% vatnsgufa. Til samanburðar er koltvísýringur, CO2, aðeins 10% af útstreymi lofttegunda í eldgosi.
Öllum, sem á annað borð gefa því gaum, má vera ljóst að litla eldgosið í Fagradal eykur losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum meira en nokkur mannleg starfsemi hér á landi. Eldgos er náttúrulegt fyrirbrigði og hefur áhrif á loftslag. Það er þekkt staðreynd.
Aftur er það ekki þekkt staðreynd, heldur vúdú-vísindi, að mannleg iðja breyti loftslagi jarðarinnar. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Ef Umhverfisstofnun safnaði upplýsingum um losun íslenskrar náttúru á gróðurhúsalofttegundum og bæri saman við losun Íslendinga stæðu vúdú-vísindin afhjúpuð. Það skiptir nákvæmlega engu máli fyrir framlag Íslands til gróðurhúsalofttegunda þótt þjóðin færi öll í moldarkofa á ný og slökkti á öllum vélbúnaði.
Íslensk náttúra sér um framlag Íslands til loftslags á jörðinni. Eins og hún gerði löngu áður en landið byggðist.
Hraunið í Geldingadal urðar meira en mosa og móabörð.
Hraunið úr eldgosinu breiðir úr sér jafnt og þétt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Upp úr Kötlugíg streyma 28.000 tonn á dag af hreinu CO2. Hún gaus síðast 1918.
Þetta fer víst framhjá bókhaldi Katrínar Jakobsdóttur og enginn borgar neitt.
Svo er eitthvað sem hét Eyjafjallajökull sem gaus 2010. Ætli sé kominn tappi í hann? Eða Holuhraunið? Eða Heklu?
Halldór Jónsson, 3.6.2021 kl. 10:08
Hefur einhver samvizku af því að fá sér dísilbíl?
Halldór Jónsson, 3.6.2021 kl. 10:11
Af hverju steinþegir Umhverfisstofnun eins og tröllin? Smásmugulegir áhrifavaldar sem eru vanir að tína allskonar tittlingaskít sem gæti bjargað okkur eru kjaftstopp. Hvað með smá hreinskilni að hætti Steingríms? Engin segir "ég hef nú áhyggjur af þessu, ég verða að segja það" í viðtali sem fer ekki fram.
Benedikt Halldórsson, 3.6.2021 kl. 10:30
Enginn ætti að hafa samvisku út af því að eiga dísilbíl ef hin svokallaða "Kóperníkus áætlun" stenst væntingar.
Þá mætti safna koldíoxíði úr borholum eða flytja það inn með tankskipum og breyta því í fyrsta flokks dísileldsneyti, láta það hvarfast við vetni með íslenskri vindraforku. Það væri miklu eftirsóknarverðara heldur en að dæla því niður í jörðina og gera það að grjóti eins og nú stendur til.
Um hagkvæmnina þori ég ekki að dæma, en heldur vildi ég slíka olíu en þá sem kemur frá arabískum emírum eða írönskum æjatollum. Power-to-X: CO2-neutrale E-Fuels aus regenerativem Strom und CO2 aus der Luft
Hörður Þormar, 3.6.2021 kl. 14:41
Eldfjöll hafa gosið frá því í árdaga. CO2 styrkur í andrúmslofti hefur stóraukist síðustu 150 árin, samt er ekki hægt að fullyrða að eldfjallavirkni hafi verið meiri en aldirnar þar á undan.
Sýnt hefur verið fram á það með ísótópamælingum að þetta aukna CO2 kemur að langmestu leyti frá leifum lífvera sem uppi voru á jörðinni fyrir örófi alda, þ.e. kolum og olíu sem brennt hefur verið.
Það má hver sem vill kalla þetta "vúdú-vísindi".
Hörður Þormar, 3.6.2021 kl. 15:56
Blessaður Páll.
Enn og aftur ræðst þú að þekkingu, að nútímanum sem við öll lifum í, og þannig séð vill enginn, eða allavega mjög fáir yfirgefa hann, og halda aftur á vit steinaldar.
Lofthjúpur jarðar á sér sínar skýringar, mannleg þekking veit meir í dag en fyrir 50 árum, mun meir en fyrir til dæmis 500 árum. En mannleg þekking veit kannski ekki mikið í svona stærra samhenginu, en það sem hún veit, getur bull og vitleysa ekki breytt, þó margir séu viðhlæjendurnir.
Jafnvægi lofthjúpar jarðar er ferli sem hefur tekið ármilljónir að ná, í því ferli eru eldgos, og líklegast var sú staðreynd þekkt fyrir svona 100 til hundrað og 150 árum síðan.
Að láta að það sé ný uppgötvun, er kannski ekki ljóður á fréttaveitu sem lætur staðreyndir ekki trufla áróður sinn, sbr Rúv og atlaga þess að íslenskum sjávarútvegi, en metnaður þinn Páll hlýtur að vera meiri en að gera lesendur þína að fífli, líkt og oft má lesa í athugasemdakerfi þínu þegar fjallað er um loftslag, og áhrif mannsins á það sama loftslag.
Mikið mega menn vera fífl, ef þeir afneita áhrifum umhverfisbreytinga mannsins, svo nærtækt dæmi sé tekið, atlagan að regnskógunum er atlaga að tilvist okkar.
Brennsla milljóna ára uppsöfnuður koltvístrings síðustu 100 árin eða svo, er annað dæmi þar um. Manngerðar borgir, orka þeirra, atlaga þeirra að ræktuðu landi og dýralífi er annað dæmi, jafnvægi Móður Náttúru er viðkvæmt, og við sem tegund höfum ráðist að því jafnvægi.
Þá eru heimskra manna rök að jörðin sem slík dæli gróðurhúslofttegundum út í himinhvolfið, eins og allir sem lesi pistla þína séu hreinræktuð fífl, að þeir fatti ekki að hið viðkvæma jafnvægi skýrist meðal annars að tilvist jarðarinnar, eðlisfræði hennar og dýnamík.
Líklegast held ég Páll að þegar þú skrifar svona bull, þá sértu síhlæjandi yfir viðbrögðum lesenda þinna, að þú hugsir, "Þarna tókst mér að fífla þá".
Sem er í góðu, lestur á bulli er lýðræðisleg réttindi fólks.
En að fífla Grand old man, þar eru mörk sem þú átt að skammast þín fyrir.
Er ekki nóg að Rúv fífli fólk varðandi uppgjöf þess gagnvart erlendu valdi, endir sjálfstæðis þjóðarinnar, endir alls þess sem skiptir okkur sem þjóð eða einstaklinga máli.
Mikil þarf málaliðinn að fá borgað, þegar hann fórnar þeim markmiðum á altari forheimskunnar.
Að sjá það ekki samhengi lýsir ekki miklum vitsmunum, en vekur uppi spurningar um launin, hvað kostar atlagan að fjöreggi þjóðarinnar??
Heimskan eða forheimskan mun aldrei varðveita það fjöregg.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.6.2021 kl. 16:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.