Laugardagur, 10. apríl 2021
Tvöfeldni lögmanna og Pyrrhosarsigur í héraðsdómi
Þrír vaskir lögmenn fengu sigur á sóttvarnaryfirvöldum í héraðsdómi í vikunni. Sigurinn varð þeim svo dýrkeyptur að kalla varð út varalið Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands til að réttlæta hann.
Innbyggð tvöfeldni málfærslumanna með lögfræðipróf er aðalástæðan fyrir hrakförum lögmannanna þriggja. Þeir fóru einfaldlega langt út fyrir þann völl sem þeim er markaður sem lögmönnum.
Lögmenn sem taka að sér málfærslu selja sérþekkingu sína á lögum annars vegar og hins vegar málafylgju. Að því leyti sem málafylgjan er ekki fyrir dómstóli þá er hún pólitísk og flutt í fjölmiðlum. Lögin sjálf eru alltaf, eða nær alltaf, virðuleg, málefnaleg og hófleg. Lögmenn á hinn bóginn eiga því miður til að öskra og æpa á torgum úti og koma óorði á lögin, líkt og róninn áfenginu.
Áður en nokkur ferðamaður sem skikkaður var í sóttkvíarhótel var svo mikið sem búinn að stynja upp kvörtun voru lögmenn búnir að kveða upp dóm sinn: ,,Sóttkvíargúlag í Þórunnartúni." Málatilbúnaður af þessu tagi er hrein og klár pólitík og hefur ekkert með virðingu fyrir lögum að gera.
Lögin eiga að þjóna samfélaginu, ekki hagsmunum lögmanna. Þeir lögmenn sem geysast inn á svið stjórnmálanna eru teknir þeim tökum sem þar tíðkast. Þeir þrír vösku voru skotnir í kaf og urðu að kalla út varaliðið, félag dómara og lögmanna, til að rétta hlut sinn.
Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands, freistar þess að setja málið upp þannig að lögmannagengið hafi verið í stríði við lækna. Svo er ekki. Þeir þrír vösku voru í stríði við samfélagið. Og töpuðu.
Viðbrögð heilbrigðisyfirvalda sérstök | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
En dómarnir voru kveðnir upp samkvæmt lögunum, Páll. Ekki samkvæmt samfélagsmiðlum.
Ragnhildur Kolka, 10.4.2021 kl. 13:07
Sammála, Ragnhildur, og einnig þeirri hugsun að með lögum skal land byggja en ólögum eyða. Bloggið og gagnrýni mín snýst um umræðuna sem lögmennirnir stöðu fyrir fremur en lögin eða dóminn sem slíkan.
Páll Vilhjálmsson, 10.4.2021 kl. 13:41
Er samfélagið þá í stríði við réttarríkið?
Guðmundur Ásgeirsson, 10.4.2021 kl. 13:52
Lögmenn eru ekki réttarríkið.
Páll Vilhjálmsson, 10.4.2021 kl. 14:00
Lögin voru svona. Það lá fyrir. Nú er bara búið að undirstrika það.
Mér persónulega finnst mjög jákvætt að þeir skuli hafa dæmt samkvæmt gildandi lögum.
Verra finnst me´r að ráðherra skuli ekki hafa getað samið lög sem voru í samræmi við stjórnarskra. Og það með hjálp lögfróðra aðstoðarmanna.
Hve vanhæft getur fólk verið?
Sækjast sér um líkir, kannski?
Og nú ætla sömu aðilar, sem sannast hafa vanhæfir að reyna aftur...
Jæja.
Ásgrímur Hartmannsson, 10.4.2021 kl. 22:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.