Bill Gates-samsærið, endurræsingin og pólitík efitr farsótt

Fyrir tíu mánuðum þegar bólusetning heimsbyggðarinnar stóð fyrir dyrum tröllriðu húsum samsæriskenningar um að væntanlegt bóluefni væri með smáforriti ættuðu úr smiðju Bill Gates auðkýfings og stofnanda Microsoft. Þegar íbúar heimsþorpsins væru allir bólusettir yrði forritið virkjað og þeim stýrt eins og tannhjólum í vél. Bóluefnið reyndist ekki eitt heldur mörg og samsærið missti tiltrú. Bill Gates er ábyggilega máttugur en hann framleiðir ekki Spútnik  í Rússlandi.

Stóra endurræsingin var önnur samsæriskenning um að eftir kófið myndi alþjóðleg elíta skipta auðæfum heimsins upp á nýtt og við byggjum í martraðarríki. Háborg alheimshyggjunnar, ESB, er rúin trausti og trúverðugleika eftir bóluefnaklúður. Án ESB er ekkert alþjóðaríki.  

Tökum stöðuna á laugardegi fyrir páska í þrem Evrópuríkjum. Þriggja daga útgöngubann er á Ítalíu, sbr. meðfylgjandi frétt. Í Þýskalandi er útgöngubann næturlangt á sumum stöðum sem virkar ekki. Bretar ræða reglur um hverjir megi ferðast til útlanda í sumar og undir hvaða formerkjum. Allt eru þetta skammtímaaðgerðir til að verjast bráðavanda. Ekkert plan, bara viðbrögð.

Leggjum til hliðar samsæriskenningar. Spáum í líklega pólitíska framvindu næstu misserin. Gefum okkur að Kínaveiran hjaðni í sumar og haust. Farsóttir eiga sinn líftíma, burtséð frá brölti mannsins.

Eftir farsótt verður spurt hvað virkaði til að hemja hana. Svarið verður tvíþætt. Staðbundið vald og samstaða. Óttinn við farsóttina, eða aðra sambærilega, lifir áfram. Sú krafa verður uppi að staðbundin yfirvöld haldi vöku sinni. Almenningur væntir stöðugleika og binst sterkari tryggðarböndum en áður við samfélag sitt. Smitið kemur alltaf utan frá. Landamæri eru vörn gegn vá.

Mannréttindi, eins og þau voru skilgreind fyrir kófið, láta á sjá. Það verður ekki lengur samþykkt að hvaða dúddi sem er geti vaðið á skítugum skónum hvert sem er og krafist alþjóðlegra mannréttinda. Þau eru ekki til og hafa aldrei verið til nema sem draumsýn. Staðbundið vald tryggir réttindi og lýðheilsu þeirra sem búa í samfélagi og hafa komið sér saman um meðferð opinbers valds. Að vera laus undan veiru og samfélagslokunum er frelsi sem trompar meint alþjóðleg mannréttindi.

Pólitíkin eftir kóf verður íhaldssamari en hún var fyrir faraldurinn. Samsæriskenningarnar, sem vikið var að hér að ofan, eru tilbúningur sem fjarska margir trúðu. Sameiginlegt þeim báðum er að hið illa er alþjóðlegt.

 

 

 

 


mbl.is Útgöngubann um páska á Ítalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband