Miðaldahlýskeiðið, Ísland og Grænland

Sennilega var Ísland verstöð norrænna manna upphaflega. Útrásin, sem kennd er við víkingaöld, hófst til vesturs frá Noregi og Danmörku um 800 til Englands, Skotlands, Orkneyja og Hjaltlandseyja.

Færeyjar finnast fyrir tilviljun og Ísland þar á eftir. Fundur Íslands verður í upphafi tímaskeiðs sem nefnt er miðaldahlýskeiðið um 900 - 1300. Þeir norrænu kunnu að sigla og lönd opnuðust þeim með veðurfarsbreytingum.

Fyrstu norrænu mennirnir sem hingað komu eru án efa ekki í leit að nýjum heimkynnum heldur auðlindum til nytja. Síðan spyrst það utan, til Noregs og norrænu byggðanna á skosku eyjunum, að hér mætti búa sæmilega að bændasið. Fólksfjölgun og pólitísk ólga sem fylgdi vaxandi konungsvaldi á kostað ættarvelda eru félagslegur bakgrunnur landnámsins.

Sagan úr Landnámabók um nýbyggð Eiríks rauða Þorvaldssonar á Grænlandi er að líkum raunsönn fyrir landnám Íslands. Eiríkur vildi ekki flytja einn vestur heldur í félagsskap. Þannig hlýtur Ísland að hafa byggst, ekki með stöku manni og fjölskyldu heldur í félagi nokkurra manna og fjölskyldna sem vildu út til nýrra heimkynna. Sama var upp á teningunum þegar Íslendingar fluttu unnvörpum til vesturheims þúsund árum síðar.

Eiríkur er sagður hafa gefið Grænlandi nafn með það í huga að hann fengi fleiri með sér til fararinnar ef ,,landit héti vel." En á miðaldahlýskeiðinu var landið grænna en síðar varð, sen gæti skýrt nafnið. Ísland fékk nafn sitt nokkru fyrr. Norræn byggð á Grænlandi lagðist af á 15. öld - á litlu ísöld sem telst frá um 1300 til 1900. Byggð á Íslandi stóð tæpt þegar leið á það tímabil.

Sögurnar sem við eigum af landnámi Íslands og Grænlands, einkum Íslendingabók Ara fróða og Landnámabók, ríma ágætlega við aðra þekkingu s.s. fornleifar og veðurfarssögu. Þótt, vel að merkja, margt sé ofsagt og annað van. En það gildir um allar sögur.


mbl.is Rykið dustað af rostungum í Perlunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Kannski hefur mankynið landnám á Mars eftir c.a. 80-100 ár! Áður en Loftagstrúvillingarnir hafa grillað jörðina

Helga Kristjánsdóttir, 14.3.2021 kl. 02:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband