Laugardagur, 6. febrúar 2021
Menningarstríð á leiðarasíðu Mogga
,,Árið 1973 voru 76% þeirra sem luku námi karlar, árið 1985 var hlutfallið jafnt og nú er hlutfall karla, sem ljúka háskólanámi, 36%... Það gengur ekki að kerfið sé þannig uppbyggt að annað kynið njóti sín betur en hitt."
Tilvitnunin hér að ofan er í leiðara Morgunblaðsins í dag. Skólakerfið skilar skakkri útkomu. Karlkynið er afvelta en konur ráðandi. Hvað er til ráða?
Á sömu blaðsíðu Mogga dagsins skrifar Svandís heilbrigðisráðherra um niðurstöðu kynjafræðings, já, kynjafræðings, sem fenginn var að gera úttekt á ,,kynjuðu" heilsufari. Þar segir að
konur virðast búa við lakara heilsufar og minni lífsgæði en karlar og að ástæður þess megi rekja að hluta til félagslegrar og efnahagslegrar stöðu þeirra í samfélaginu.
Konur eru betur menntaðar, eru sérfræðingar í auknum mæli, en karlar verr menntaðir og vinna lengri vinnudag. Þekkt staðreynd er að lífaldur kvenna er lengri en karla. Samt búa konur við ,,lakara heilsufar og minni lífsgæði" en karlar, segir Svandís.
Þessi ólíku viðhorf, leiðarans annars vegar og hins vegar Svandísar, eru til marks um að djúp gjá er staðfest á milli þeirra sem velta fyrir sér stöðu kynjanna, og þar með allra landsmanna, í íslensku samfélagi. Þessa gjá þarf að brúa.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.