Laugardagur, 30. janúar 2021
Friðjón, Brynjar og viðreisnarsósíalismi
Tveir sjálfstæðismenn skrifast á í Morgunblaðinu um hlutverk flokksins. Friðjón R. Friðjónsson vill að Sjálfstæðisflokkurinn verði umbreytingarafl en Brynjar Níelsson geldur varhug við.
Vinstrimenn og sósíalistar líta svo á að stjórnmálaflokkar séu til að umbylta samfélaginu. Hægfara sósíalistar, oft kallaðir kratar, vilja breyta með góðu, þ.e. eftir reglum lýðræðis og þingræðis, en þeir róttæku með illu, byltingu.
Borgaraleg stjórnmálaöfl, sem Sjálfstæðisflokkurinn tilheyrir, a.m.k. að nafninu til, boða almennt ekki umbyltingu á samfélaginu. Samfélagsverkfræði er meira á dagskrá jaðarhópa sem telja sig handhafa sannleikans. Flestir þannig þenkjandi eru í vinstripólitík af einhverri sort. En svo eru sérafbrigði.
Viðreisn, eins og Brynjar bendir á, vill breytingar og þær frekar meiri en minni. Fyrsta krafa flokksins er að Benni komist á þing og flokkurinn í ríkisstjórn. Þarnæst bylta landbúnaðarkerfinu, síðan fiskveiðikerfinu og loks fullveldinu - með inngöngu í ESB.
Viðreisnarsósíalismi er dans elítunnar um gullkálfinn. Meiningin er að skilja þá eftir sem vinna til lands og sjós svo að sérfræðielítan fái stærri sneið af kökunni. Skiljanlegt markmið hjá þeim sem telja sig eiga alltaf að vera fremst í röðinni, hvort heldur við útdeilingu gæða eða afskriftir skulda.
Athugasemdir
Brynjar er ekki einn um að hafa haldið að þarna ræskti sig rödd Vidreisnar. Friðjón kvartaði og kveinaði um allt það sem uppá vantar svo Ísland megi ganga inní um gullna hliðið. Já, ESB lék þarna á tungubroddinum en var ekki nefnt. Bara eyða eða tóm. Annað hvort er PR maðurinn genginn í lið med Viðreisn, hann tók jú að sér leikstjórn í forsetafarsanum eða Bjarni er að senda út þreifara vegna fullveldis framsals. Eg er hrædd um að þá dugi ekki að senda Brynjar fram á vøllinn. Nú verður Bjarni sjálfur að svara fyrir afstøðu sína til þessara skrifa.
Ragnhildur Kolka, 31.1.2021 kl. 01:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.