Jadin, Gauti og Sigríður

Ung belgísk kona, Allysson Jadin, framdi sjálfsmorð vegna sóttvarna er leiddu til þess að hárgreiðslustofna hennar stefndi í gjaldþrot. Hér heima teflir Gauti Kristmannsson prófessor fram þeirri staðreynd að aldraður faðir hans lést úr COVID 19 á Landakoti vegna ónógra sóttvarna. 

Gauti segir málflutning Sigríðar Andersen og fleiri, sem telja sóttvarnir vinna meira tjón en gagn, fyrirlitlegan.

Hvort á að lita á sóttvarnir með afdrif Jadin í huga eða með augum Gauta?

Ekkert einhlítt svar er til. Samt krefst spurningin svara.

Ríkisvaldið ber ábyrgð á samfélagslegum sóttvörum. Án viðurkennds yfirvalds væri engum sameiginlegum sóttvörnum til að dreifa, aðeins persónulegum. Hlutverk ríkisvaldsins er að sjá til þess að samskipti okkar gangi sæmilega snurðulaust fyrir sig. Til þess höfum við margvísleg lög og stofnanir. Fyrir þessa þjónustu borgum við skatt.

Þegar farsótt ber að garði er það í höndum ríkisvaldsins að meta hættuna annars vegar og hins vegar grípa til hæfilegra ráðstafana.

Fyrirfram vissi enginn hve skaðleg Kínaveiran yrði. Ekki heldur var vitað hve faraldurinn stæði lengi. Stjórnvöld, bæði hér heima og erlendis, urðu að þreifa sig áfram, taka ákvarðanir 10-15 daga fresti um aðgerðir. Eins og gengur fannst sumum full harkalega gengið fram en öðrum að ekki væri nóg að gert.

Þegar ríkisvaldið, þríeykið hjá okkur, tók sínar ákvarðanir var ekki miðað við hverjar afleiðingarnar yrðu fyrir Pétur eða Pál, tilgreinda einstaklinga, heldur almannahagsmuni.

Við sem einstaklingar urðum á hinn bóginn að lifa við aðgerðir yfirvalda. Við getum unað þeim eða andmælt. En helst þurfum  við að hlýða.

Aftur að Jadin og föður Gauta. Að deyja vegna sjálfsvígs eða sjúkdóms er tvennt ólíkt. Í fyrra tilvikinu tekur einstaklingur ákvörðun um að farga eigin lífi. Í því seinna er ákvörðunin ekki í höndum þess er gefur upp öndina.

Ríkisvaldið ákveður ekki hvort við lifum eða deyjum. Við sjálf og aðstæður, sem oft eru handan mannlegrar getu að ráða við, skiptum þar máli.

Á heildina litið hefur íslenskum yfirvöldum tekist framar vonum að bregðast við Kínaveirunni. Það þýðir ekki að við ættum að hætta að ræða hvort nóg hafi verið gert eða fullmikið. Við eigum ríkisvaldið saman og búum sem betur fer í samfélagi þar sem orðið er frjálst.   

 


mbl.is Sorg meðal íbúa Liege
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Góður Páll.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.11.2020 kl. 11:37

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Og að sjálfsgöðu Takk fyrir.

Enn einn rammi þinn um kjarna.

"Að deyja vegna sjálfsvígs eða sjúkdóms er tvennt ólíkt. Í fyrra tilvikinu tekur einstaklingur ákvörðun um að farga eigin lífi. Í því seinna er ákvörðunin ekki í höndum þess er gefur upp öndina.".

Ekki hægt að orða betur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.11.2020 kl. 12:35

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Hvernig þú skautar framhjá þeirri staðreynd að sóttvørnum á Landakot var ábótavant er óskiljanlegt. Það felst í sjálfu orðinu hvert hlutverk sóttvarna er, þ. e. verjast sóttum. Það var einmitt þar sem teymið brást a Landakoti. Enn taka þau ekki ábyrgð á því en kenna húsnæðinu um. Það er þó full billegt því fólk var sent inn á Landakot í stríðum straumum, þótt ráðuneytinu hafi ítrekað verið boðin aðstaða til að sinna fráflæðisvanda Lsp. Þar á ég við Heilsuvernd í Urriðahvarfi og Heilsumidstøðina í Ármúla. Það er pólitísk ákvörðun ráðherra að nýta ekki þessi úrræði og ef einhver døngun væri hér í fólki þá ætti ráðherrann að víkja. Sé ekki að það sem átti sér stað á Landakorti sé minni skandall en minkahneykslið í Danmörku. 

Ragnhildur Kolka, 22.11.2020 kl. 14:06

4 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Ragnhildur, ég hef ekki kynnt mér Landakotsmálið sérstaklega og hef því ekkert sagt um það, hvorki í þessu bloggi né öðru. Góðu heilli hef ég lítið þurft persónulega á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda. Aftur átti ég móður og föður sem þurftu mikið á kerfinu að halda sl. 20 ár. Mín reynsla, gegnum þau, er að starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar leggur sig fram um að hjúkra af alúð og fagmennsku.

Þar með er ekki sagt að allt sé fullkomið. Við búum ekki í þannig heimi.

Páll Vilhjálmsson, 22.11.2020 kl. 14:47

5 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ég er ekki að ásaka starfsfólk Landakots um vanrækslu, það setur ekki reglurnar. Aðeins að benda á að ástand Landakots var þekkt og sóttvarnaryfirvöld og ráðherra brugðust skyldu sinni hrapallega.

Ragnhildur Kolka, 22.11.2020 kl. 15:07

6 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Það er langbest að ráðherra beri ábyrgðina eins og sofandi skipstjóri í koju sem ber ábyrgð á klúðri stýrigamans. Það er skipstjórans að finna hæfa áhöfn. 

Það er galið að kenna yfirmönnum landspítalans eða starfsfólki um eða þingmönnum sem hvergi komu nærri. Rannsókn mun alveg örugglega ekki finna þann "seka" innan spítalans. Ráðherra er ekki "sekur" í glæpsamlegri merkingu. Hann ber pólitíska ábyrgð og á því að víkja. Nýr ráðherra passar að svona harmleikir endurtaki sig ekki.

Benedikt Halldórsson, 22.11.2020 kl. 15:12

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Þett er kjarni málsins:

"Ríkisvaldið ber ábyrgð á samfélagslegum sóttvörum. Án viðurkennds yfirvalds væri engum sameiginlegum sóttvörnum til að dreifa, aðeins persónulegum. Hlutverk ríkisvaldsins er að sjá til þess að samskipti okkar gangi sæmilega snurðulaust fyrir sig. Til þess höfum við margvísleg lög og stofnanir. Fyrir þessa þjónustu borgum við skatt.

Þegar farsótt ber að garði er það í höndum ríkisvaldsins að meta hættuna annars vegar og hins vegar grípa til hæfilegra ráðstafana."

Auðvitað verða einhversstaðar lykkjuföll. En í heildina tekið hefur flest verið gert rétt nema að slaka á of snemma.

Halldór Jónsson, 22.11.2020 kl. 16:22

8 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Alltaf, það bregst ekki, þegar Íslendingar telja sig besta í heimi dynja einhverjar hörmungar yfir. Það er ekkert tilefni til að grobbast núna. 

Benedikt Halldórsson, 22.11.2020 kl. 18:08

9 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Siðleysið er algjört í heimi hins eigingjarna og gráðuga. Ung kona og sjálfsmorð hennar í Belgíu kemur ekki dauða 84 ára manns á Íslandi við. Hvort veiran kemur frá Kína eða Kaupmannahöfn, þá eru skoðanir frú Andersen og þínar andstyggilegar. Yfirvöld hafa gert það sem hægt var að gera. Heilbrigðiskerfið á Íslandi hefur staðið sig vel, en ekki nógu vel, því spítalar eru úreldir. Peningum,sem rænt var af þjóðinni af násugum í bönkum, gætu hafa borgað fyrir betra heilbrigðiskerfi. Dauði Kristmanns var ef til vill óumflýjanlegur, þar sem hann hefur verið langt leiddur áður en hann kom á spítalann. En þó þú sért súperkapítalisti Páll, berðu vinsamlegast virðingu fyrir lífi annarra án þess að búa til skálkaskjól og samsæriskenningar úr afar mismunandi örlögum. Fyrirlitning á andstæðingum sínum réttlætir ekki að mann misnoti staðreyndir.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 22.11.2020 kl. 19:00

10 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Vilhjálmur Örn, hvaða samsæriskenningar? Í blogginu eru bornar saman skoðanir á hvort nóg hafi verið gert i sóttvörnum eða of mikið. Ekkert samsæri þar, aðeins umræða um ólík sjónarhorn á sama málið. Vertu aðeins nákvæmari í öllum æsingnum.

Páll Vilhjálmsson, 22.11.2020 kl. 23:11

11 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

 Covid er bara flensa sagði Trump og fékk flensuna og missti embættið. Lengi var þó síðan hann hafði misst vitið, svo léleg rökhugsun var kannski skiljanleg. Samsærismeistarinn missti ekki embættið vegna Covid 19. Hann missti embættið vegna þess að meira en helmingur bandarísku þjóðarinnar skilur, sem betur fer, að það er munur á venjulegri flensu og Covid 19. Frú Andersen skilur það enn ekki og það er ekki minnsta ástæða til að bera í bætiflákann fyrir málflutning hennar, sem er ekki bara fyrirlitlegur heldur sjúklega eigingjarn og með afbrigðum dónalegur. Kannski er frú Andersen smáskyld forsetanum í BNA sem nú hefur verið hent á haugana. En líklega ekki, fólk sem trúir samsæriskenningum og rugli er til í öllum löndum. Heimska og lítil greind er til alls staðar.

Við skulum bara halda okkur við að hér tókst yfirvöldum mjög vel miðað við aðstæður, og jafnvel yfirvöldum í Danmörku, þó embættismenn hafi gleymt því að maður verði að fylgja lögum, sem breytir því þó ekki að Covid afbrigði í minnkum getur, ef illa fer, drepið fólk. Frændur frú Andersen í Danmörku hugsa hins vegar um minkabissness í stað fólks sem deyr. Þeim er sama um mannslíf en ekki um eiginhagsmuni stéttar sem stundað hefur dýraníð til að svala duttlungum þeirra láta peningana tala og hugsa.

Og svo er það mýtan um að þetta sé Alkínversk veira. Má vera að hún hafi orðið til í Kína, en meðan land eins og Ísland hleypti Kínverjum inn í landið í lok Janúar 2020, þegar veiran var á fullu flugi og vitneskjan var nóg til að stöðva þá við landamæri, þá er íslenska græðgin hinn eiginlegi upphafspúnktur veirunnar. Það var líka ferðalosti og greðja þeirra yfirstéttarbubba sem endilega þurftu að fara á skíði til að komast á sukkbari þar sem menn græða á því að sprauta áfengi niður í kok skíðafólks frá Norðurlöndunum. Saurlifnaður íslensk skíðafólks með sérþarfir kemur Kína ekkert við. 

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 23.11.2020 kl. 06:14

12 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

"Kínaveira" er orðanotkun sem við þekkjum frá meistara samsæriskenninganna, Donald Trump. Mér sýnist því að þú sért hans maður í einu og öllu.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 23.11.2020 kl. 06:18

13 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Að kenna Kínaveiruna við upprunalandið er sem sagt samsæri. Spænska veikin fyrir hundrað árum er þá alheimssamsæri gegn Spáni. Ég held ekki. Kínaveiran er réttnefni á meðan spænska veikin kom Spáni ekkert við. 

Páll Vilhjálmsson, 23.11.2020 kl. 06:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband