Stjórnarskráin fékk 99% fylgi í þjóðaratkvæðagreiðslu

Í maí 1944 var íslenska þjóðin spurð í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vildi stjórnarskrá sem alþingi hafði samþykkt vegna stofnunar lýðveldis síðar sama sumar.

Kjörsókn í þjóðaratkvæðagreiðslunni var 98,6% prósent og 99 prósent samþykktu stjórnarskrá lýðveldisins.

Þegar þjóðin samþykkir stjórnarskrá er ekki tjaldað til einnar nætur. Stjórnskipun hvílir á stjórnarskránni. Aðeins tvennt gæti mögulega réttlætt víðtækar breytingar á stjórnarskrá með jafn sterkt umboð og sú íslenska hefur.

Í fyrsta lagi bylting, friðsamleg eða blóðug, sem gengur á milli bols og höfuðs á ríkjandi stjórnskipun. Eftir árangursríka byltingu þarf nýja stjórnarskrá sem endurspeglar gerbreytt samfélag. Engin slík bylting hefur farið fram á Íslandi. Búsáhaldaglamrið var stundarófriður.

Í öðru lagi að þjóðin sammælist um að nauðsyn sé á nýrri stjórnarskrá. Samkomulagið þarf að vera eindregnara en þjóðaratkvæðagreiðslan í maí 1944, - í það minnsta á pari. En þangað til að 99 prósent þjóðarinnar segir já við breytingum á grundvallarlögum okkar ættu þingmenn og aðgerðasinnar að finna sér önnur verkefni að rjátla við.


mbl.is Tillögur stjórnlagaráðs ekki greyptar í stein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allir leiðtogar stjórnmálaflokkanna á þingi gáfu um það loforð fyrir kosningarnar 1944 að stjórnarskráin, sem var nær alveg óbreytt, til þess að fá fram algera samstöðu, sem tryggði framgang hennar fyrir augum alheimsins, að stjórnarskráin yrði endurskoðuð gagngert eftir stríðið. 

Stofnuð var stjórnarskrárnefnd, en ekki náðist samstaða, jafnvel þótt Sveinn Björnsson forseti Íslands brýndi þingmenn til dáða í áramótaávarpi 1949.   

1959 var þó svo komið, að þessi stjórnarskrá var orðin þanngi, að í kosningunum 1949 fengu Seyðfirðingar tvo þingmenn, annan út á nokkra tugi atkvæða.  1953 munaði minnstu að Sjálfstæðisflokkurinn fengi meirihluta þingmanna út á 38% atkvæða, og 1956 stefndi bandalag Alþýðuflokks og Framsóknarflokks á það að nota ágalla kosningakaflans til að fá meirihluta þingmanna út á rúmlega þriðjung atkvæða. 

Eina leiðin til að breyta þessu var að keyra í tvennar hatrammar og átakamiklar Alþingiskosningar 1959. 

En þinginu brást mörgum sinnum það ætlunarverk stjórnarskrárnefnda sinna að fá samstöðu um nýja stjórnarskrá. 

1995 tókst að setja inn mannréttindakafla og 1999 lítilsháttar kjördæmabreyting en með áframhaldandi meira en tvöfalt misvægi atkvæða.   

Ómar Ragnarsson, 18.10.2020 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband