Laugardagur, 10. október 2020
Nýja stjórnarskráin, svokölluð
Nýja stjórnarskráin er gjörningur, sem má, ef vilji er fyrir hendi, kenna við list áhugaleikhúss um pólitík. Hitti er öllum ljóst að nýja stjórnarskráin brýtur gegn lögmætri stjórnskipun lýðveldisins og er án pólitísks umboðs.
Eftir hrun bjuggu vinstrimenn til þá pólitísku skoðun að stjórnarskráin bæri ábyrgð á hruninu, auk Sjálfstæðisflokksins, vitanlega. Ríkisstjórn Jóhönnu Sig. efndi til kosninga til stjórnlagaþings í nóvember 2010. Tveim mánuðum síðar úrskurðaði hæstiréttur Íslands kosningarnar ógildar. Í stað þess að efna til nýrra kosninga skipaði ríkisstjórnin 25 einstaklinga í stjórnlagaráð.
Ríkisstjórnin hefði allt eins mátt fela Fimleikafélagi Hafnarfjarðar eða kirkjusöfnuði Bústaðakirkju að setja saman drög að nýrri stjórnarskrá og þessa 25 einstaklinga. Í öllum tilfellum er stjórnskipulega rangt staðið að verki.
Pólitískt umboð svokallaðs stjórnlagaráðs var metið í þingkosningunum vorið 2013. Ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylking og Vinstri grænir, fengu 12,9% og 10,9% fylgi. Þar með var pólitískt umboð stjórnlagaráðs fokið út í veður og vind.
Til er sígildur texti um stjórnlagaráðið.
Þess vegna gæti ég alls ekki tekið undir með þeim vanhugsandi og eirðarlausu mönnum, sem brjóta heilann í sífellu um nýjar umbætur í opinberri sýslan, þó að hvorki ættgöfgi né veraldargengi hafi kallað þá til slíkra starfa. Ef ég teldi, að í þessu riti mínu fyrirfyndist minnsti vottur einhvers, sem gæti vakið grunsemdir um slíka vitfirringu í fari mínu, væri mér afar óskapfellt að birta það.
Höfundurinn er Réne Descartes. Ráðsmenn stjórnlagaráðs hefðu betur hlustað á Fransmanninn. En nú situr vanhugsandi og eirðarlausa fólkið uppi með sína vitfirringu, - og kallar gjörning.
Styðja listgjörning, ekki undirskriftasöfnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Descartes var snjall heimspekingur, ég hef eytt nokkrum árum í að hrista hausinn yfir honum og öðrum (aðeins færri) til að kinka kolli við honum og síðustu misserin í að gera bæði.
Það breytir ekki að Umboðsmaður Alþingis vissi ekki í ársbyrjun 2014 hvernig maður kærir stjórnlagabrot né fyrir hvaða dómi. Sú spurning hafði aldrei komið upp á Lýðveldistímanum. Embættið klóraði þó í að svara þessari spurningu þrem árum síðar, en klórið var kjánalegt.
Sósíalistar hafa aldrei sannað með ábyrgum hætti að þörf sé á nýrri stjórnarskrá en þeim hefur heldur ekki verið svarað með ábyrgum hætti um hvers vegna sáttmálinn frá 1944 sé ágætur eins og hann er, enda er lítið farið eftir honum, að margra mati.
Hér kemur því bómullarprófið: 1. Hvað er ríkissmiðja og hvernig mótar maður hana? 2. Er einhver hugveita hérlendis sem þróar umræður og fræði samfélags- og/eða þjóðarsáttmála? 3. Hvernig greinir maður og útskýrir þjóðarglæp þ.e. brot gegn stjórnlögum? 4. Hvar kærir maður slíkan glæp og hvers kyns dómstóll þyrfti að skera úr um; hefði umdæmi og umboð? 5. Hvernig ber að refsa fyrir slíkan glæp og hver skyldi ábyrgur lúkningar?
Til að sýna fram á að þörf sé á nýrri eða breyttri stjórnarskrá, þarf að lágmarki að svara spurningum þrjú til fimm, á þann hátt að tveir þriðju þjóðar sjái skýrt.
Afsakið langt svar - en málefnið er sérstakt áhugamál - en mín niðurstaða er sú að vinstri-sósíalistar séu með einhverja verkfræði í gangi, því þetta er fjórða (órökrétta) atlaga þeirra að stjórnarskránni á rúmum áratug.
Guðjón E. Hreinberg, 10.10.2020 kl. 09:55
Auðvitað er það ljótt að hrófla við stjórnarskrá sem gegnir því veigamikla hlutverki að verja fulltrúa löggjafarþingsins og vini þeirra úr hópi auðugustu atvinnurekenda fyrir ónæði óbreyttra þegna.
Út yfir tekur þó þegar stjórnarskráin er unnin af fólki sem hvorki hefur til þess "ættgöfgi né veraldargengi", svo notuð séu orð hins franska hugsuðar.
Sveini Björnssyni, fyrsta forseta lýðveldisins, ásamt miklum hluta alþingismanna okkar sem á sama tíma tóku plaggið frá danska kónginum til fullgildingar hefur greinilega yfirsést eitthvað í fljótræðinu þegar þeir töldu brýnt að skipta því út hið bráðasta fyrir nýja stjórnarskrá.
Árni Gunnarsson, 10.10.2020 kl. 11:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.