Vísindi, pólitík og farsótt

Innan heilbrigðisvísinda er óeining um rétt viðbrögð við farsóttinni og fullkomlega eðlilegt er að sú óeining fái farveg í pólitískri umræðu.

Tvær meginstefnur eru uppi. Önnur er bæling farsóttarinnar, sem felur í sér stórfellda sóttkví og víðtækar lokanir á samfélagslegri starfsemi. Hin er hjarðónæmi þar sem farsóttinni er leyft að leika lausum hala en gætt að veikum og öldruðum.

Bælingarstefna hefur haft vinninginn í vestrænum ríkjum. Jafnvel Svíar, sem þykja hafa mesta sérstöðuna fylgja vægri útgáfu hennar. Fylgifiskur þessarar stefnu er að veirufaraldurinn dregst á langinn, með þriðju, fjórðu og fimmtum bylgju faraldursins. Vonir stóðu til að bóluefni yrði til um áramótin og þá skyldi faraldrinum létta.

En nú þegar vafi leikur á að bóluefni verði tilbúið í bráð vex þeim fiskur um hrygg sem segja bælinguna alloft dýrkeypta fyrir samfélagið. Líf almennings fer úr skorðum, fátækt eykst og félagsleg eymd sömuleiðis. Hjarðónæmi sé náttúruleg vörn við farsótt.

Siðferðilegur vandi við leið hjarðónæmis er að einhverjir munu veikjast alvarlega og einhverjir deyja verði horfið frá bælingarstefnu.

Í umræðunni um sóttvarnir er enginn besti kostur, aðeins skásti. En þannig er mannlífið yfirleitt.


mbl.is Þrír ráðherrar í hópi efasemdamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er raunhæft að verja þá sem veikastir eru fyrir, sé leitast við að ná hjarðónæmi eins hratt og hægt er. En sé faraldurinn dreginn endalaust á langinn er engan veginn raunhæft að einangra þetta fólk á meðan. Ég held því að leið hjarðónæmisins sé á endanum sú sem leiðir til fæstra dauðsfalla.

Þorsteinn Siglaugsson, 8.10.2020 kl. 08:39

2 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Smmála Þorsteinn.

Það er endanlega búið að kippa stoðunum undan allskonar einkarekstri. Flestir voru sammála um aðgerðirnar í vor. Það tókst ekki að drepa veiruna.

Um leið og lokanir eru endurteknar er komið fordæmi, að þær verði endurteknar á næstu árum eins og þurfa þykir. Skilaboðin hafa lamandi áhrif. Engin einkaaðili getur rekið þjónustufyrirtæki ef hægt er að loka því aftur og aftur. Það fær engin lán í svoleiðis rekstur. 

Benedikt Halldórsson, 8.10.2020 kl. 08:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband