Miðvikudagur, 11. desember 2019
Kastljós: fer Jóhannes með sanna sögu eða samsæri?
Í viðtali við Kastljós RÚV í kvöld fór Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn sem hratt Samherja-Namibíumálinu úr vör, yfir sviðið - ,,umræðuna" með tungutaki RÚV - eftir Kveiks-þátt RÚV fyrir mánuði.
Meginþema umræðunnar hingað til er að Samherji hafi borgað mútur til namibískra stjórnmálamanna og fengið í staðinn veiðiheimildir, kvóta, í namibískri landhelgi.
Á fjórtándu mínútu Kastljóssviðtalsins í kvöld segir Jóhannes þetta: ,,Fyrsta skrefið hjá mér var að upplýsa glæpi Samherja gagnvart kvótahöfum sem voru í samvinnu við þá. Svo þróaðist þetta lengra þegar ég fór að gera mér grein fyrir hvað var í gangi og hvað maður var hluti af."
Spyrill Kastljóss var vitanlega of upptekinn af ,,umræðunni" um spillingu Samherja til að kveikja á orðum Jóhannesar og hvað þau þýða.
Jóhannes byrjar sem sagt því að vinna með namibískum kvótahöfum sem eru viðskiptafélagar Samherja. Hér er á ferðinni viðskiptadeila. Ef Jóhannes var enn í starfi hjá Samherja þegar hann tók að vinna fyrir namibísku kvótahafa er augljóst að hann hafi leikið tveim skjöldum.
Jóhannes segir að það var ekki fyrr en eftir að hann fór að vinna með ósáttum viðskiptafélögum Samherja að hann hafi gert sér ,,grein fyrir hvað var í gangi og hvað maður var hluti af". Hér getur Jóhannes ekki verið að vísa í neitt annað en meginþema umræðunnar, þ.e. meintar mútugreiðslur Samherja til namibískra embættis- og stjórnmálamanna.
Það rennur upp fyrir Jóhannesi, eftir atburðina, að hann hafi verið þátttakandi í spillingu. Nærtækt að álykta að meintar mútugjafir hafi haft fremur sakleysislegt yfirbragð fyrst þær fór framhjá honum í fyrstu. En það er allt önnur mynd en dregin var upp í Kveiks-þættinum. Þar skipti rauð íþróttataska sneisafull af peningum um hendur mútugjafa og þiggjanda. Sá sem ekki er meðvitaður um að hér sé á ferðinni eitthvað misjafnt, tja, hlýtur að vera meðvitundarlaus.
Þegar Jóhannes fattar eftir á að hann hafi verið aðili að spillingu er hann kominn í bandalag með óánægðum viðskiptafélögum Samherja. Það er vitanlega í þágu bandamanna Jóhannesar að gera hlut Samherja sem verstan. Samherji þarf að berjast á þrennum vígstöðvum; gegn fyrrum viðskiptafélögum, gegn namibískum yfirvöldum og í þriðja lagi RÚV-fóðruðum almenningi á Íslandi. Bandamenn Jóhannesar komast í kjörstöðu fyrir atbeina uppljóstrarans.
Í Kastljósi kvöldsins kveikti rænulaus umræðu-spyrillinn ekki á spurningu sem æpti framan í áhorfendur: hver borgar fyrir 13 manna lífvarðasveit sem fylgir Jóhannesi?
Hver borgar?
Namibísk yfirvöld leggja hald á Heinaste | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sem sagt aðal áhyggjuefnið þitt er hver borgar þessa 13 lífverði Páll. Er mðguleiki að það geti verið Namibisk stjórnvöld, sem er umhugað um að hann sé ekki drepinn af íslenskum og namibiskum bandittum. En hvar í ferlinu ertu efins? Efins um að það sem fram kemur í skjölum séu ekki réttar, hefur þú eithvað að fela sem bendir til annars?
Jónas Ómar Snorrason, 11.12.2019 kl. 21:58
Ætla má að áhorfendur finni sig sem einn í hópi kviðdómenda þegar viðmælandi Kastljós þylur meinta spillingu Samherja í Namibíu. Hvers vegna spyr fréttamaðurinn ekki uppljóstrarann um hver borgar lífvörðum hans? Er ekki rétt að það komi fram.
Helga Kristjánsdóttir, 12.12.2019 kl. 01:03
Jóhannes fékk engar spurningar sem óneitanlega vakna. Jú, RÚV ver sinnn mann út í eitt.
Benedikt Halldórsson, 12.12.2019 kl. 05:28
Er Jóhannes ekki kominn í bullandi pólitík í Namibíu? Það gæti útskýrt alla þessa lífverði.
Ragnhildur Kolka, 12.12.2019 kl. 12:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.