Mánudagur, 9. desember 2019
Vísindavefurinn afneitar vísindum
Sá sem notar orðið afneitun í vísindalegri umræðu tekur trúarafstöðu sem á ekkert sameiginlegt með vísindum. Vísindavefur Háskóla Íslands fellur í trúarpyttinn í umfjöllun um ólíkar skoðanir á loftslagsbreytingum af mannavöldum.
Vísindi er aðferð til að skilja náttúruna. Vísindakenning staðhæfir tiltekið samhengi í náttúrunni. Til að kenningin fái staðfestingu þarf hún að gera tvennt. Í fyrsta lagi að hafa forspárgildi. Í öðru lagi að útskýra liðna atburði.
Kenningin um að athafnir mannsins stjórni veðrinu uppfylla hvorugt skilyrðið. John Christy, viðurkenndur loftslagsvísindamaður, hefur sýnt fram á að spár um hlýnun síðustu áratuga eru rangar. Spárnar sem IPCC, sú stofnun Sameinuðu þjóðanna sem tekur þær saman og gefur út, eru mælanlega og sannanlega rangar.
Seinna skilyrðið, að útskýra liðna atburði, er heldur ekki uppfyllt af þeim sem telja manninn breyta loftslaginu. Miðaldahlýskeiðið, frá um 900 til 1300, er viðurkennd vísindaleg staðreynd. Litla ísöldin, sem tók við og stóð fram á 19. öld, er einnig vísindaleg staðreynd. Í hvorugu tilfellinu gat maðurinn haft nokkur áhrif á loftslagsbreytingar. Lögmál loftslagsbreytinga eru óþekkt en hitt er sannanlega vitað, að náttúran breytir veðri frá degi til dags og loftslag tekur breytingum frá ómunatíð.
Það er ekki til nein heildstæð kenning um veðurfar og loftslag. Ef slíkrar kenningar nyti væru trúverðugar veðurspár ekki takmarkaðar við fáeina daga, eins og nú er.
Vísindamenn á sviði loftslags, sem ekki eru sammála Al Gore, Grétu Thunberg og Vísindavef HÍ, eru m.a. Richard Lindzen, Roy Spencer og Judith Curry. Þau tvö síðast nefndu halda úti heimasíðum sem hægt er að kynna sér. Fyrirlestra Lindzen má finna á you tube.
Það er ekki ,,afneitun" að benda á hið augljósa, að manngert veðurfar er ímyndun. Aftur er það afneitun á veruleikanum að taka trúarafstöðu í vísindaumræðu.
Athugasemdir
Takk fyrir það Páll að halda vökunni á þessum myrku tímum.
Halldór Jónsson, 10.12.2019 kl. 00:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.