Þriðjudagur, 26. nóvember 2019
Samherji Sjálfstæðisflokknum dýrkeyptur
Sjálfstæðisflokkurinn tapar mestu á Samherjamálinu. Í aðdraganda Kveiks-þáttarins hagaði Samherji sér eins og ríki í ríkinu, ætlaði sér að koma seðlabankastjóra Jóhönnustjórnarinnar, Má Guðmundssyni, í fangelsi. Már vann sér það til óhelgi að rannsaka gjaldeyrisviðskipti Samherja. Látið var eins og útgerðin ætti landið og miðin með þjóðina sem leiguliða er ætti hvorki að æmta né skræmta heldur hlýða.
Áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum létu sér vel líka að Samherji léti höggin dynja á þeirri stofnun sem vakir yfir velferð krónunnar og þar með efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Það fer ekki vel á því að norðlenskir útvegsbændur brjóti helstu stofnun lýðveldisins á bak aftur. Fiskur verður alltaf dreginn á Íslandsmiðum. Krónan er höfuðdjásn sem slorugar krumlur eiga ekki að fara höndum um.
Í aðförinni að Seðlabankanum hlóðu Samherjamenn eigin galdrabrennu. RÚV-Kveikur skaffaði eldfærin. Ísland er ekki Gvatemala þótt Samherji leiki United Fruit.
Meðhlaup Sjálfstæðisflokksins gerir móðurflokkinn pólitískt meðsekan í Namibíuútgerð Norðlendinganna. Stjórnarandstaðan finnur blóðbragð og sparar ekki stóryrðin.
Eftir því sem fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar líkist flokkurinn æ meira laustengdu bandalagi valdahópa í viðskiptalífi og djúpríki embættismanna. Sjálfstæðinu var fórnað fyrir þessa hagsmuni með 3. orkupakka ESB sem flokkurinn kokgleypti. Án kjölfestu og á klafa sérhagsmuna er Sjálfstæðisflokkurinn eins og spýta með smásteinum vinstribörnum að leik í fjöruborðinu.
Sökuðu fjármálaráðherra um lögbrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Jú, vissulega kemur Samherjamálið illa við Sjálfstæðisflokkinn. En *knee-jerk* viðbrögð vinstrimanna eru ávallt að öllu megi bjarga með því að ausa meiri pening í málefnið. Að allt fari upp í loft vegna þess að ekki sé samstundis ausið úr sjóðum segir því ekkert um þörfina. Ég leyfi mér að bera blak af Bjarna fyrir að vera ábyrgur í fjármálum. Á meðan ekkert liggur fyrir um þörf héraðs- og Rskattstjóra fyrir meira fé á fjármálaráðherra að doka við.
Nógur er fjárausturinn samt.
Ragnhildur Kolka, 26.11.2019 kl. 10:01
Samherji er ekki hafinn yfir gagnrýni frekar en Ísrael sem breyskir menn stjórna. Allir eru breyskir. Seðlabankastjórar líka en þó ekki RÚV og Stundin sem hafa eins og James Bond - licence to kill - vondu kallana.
Þegar ofstækisfólkið sér rautt, er Ísrael alversta land í heimi sem á ekki tilverurétt og Samherji verður skotskífa fyrir innibyrgt hatur. Engum vörnum er við komið.
Það eyðileggur stemninguna að bíða með stórar reiðar skyndiályktanir. Jafnvel meintur morðingi fær verjanda. Það er ekki byrjað á því að taka hann af lífi.
Þótt ólíku sé við að jafna er það þó sama ofsareiðin sem frussast í allar áttir þegar Samherji og Ísrael ber á góma - sem á ekkert skylt við gagnrýni eða fréttamennsku.
Orkupakkinn rann í gegn. Það var skrifað undir yfirlýsingu í Marokkó sem ekkert var fjallað um. Jafnvel þótt skrifað hafi verið undir loforð, að "skóla" blaðamenn og tukta alla þá til sem ekki hafa sömu No border glóbalsýnina - að leggja niður landamæri Ísraels og Íslands.
Ég held að það ákvæði hafa þegar öðlast gildi.
Benedikt Halldórsson, 26.11.2019 kl. 11:19
Sjálfsstæðisflokkurinn í heild flýtur sofandi að feigðarósi - með úrvalslið í brúnni. Er bara í góðu lagi að missa sjálfsstæðið - smátt og smátt? Er í lagi að skilgreina þjóðarstolt sem þjóðrembu sem er næsti bær við nasisma? Áróðurinn er klikkaður. Á ekkert að bregðast við honum?
Fólk er hætt að þora að tala vel um sína eigin þjóð. Auðvitað tapar sofandi flokkur sem kennir sig við sjálfstæði í næstu kosningum.
Benedikt Halldórsson, 26.11.2019 kl. 11:40
Hræddur um að staðan versni enn 1.des. þegar Al Jazeera frumsýnir sitt..
Guðmundur Böðvarsson, 26.11.2019 kl. 15:28
Maður spyr sig hvers vegna Namibíumenn eru svona eldsnöggir að handtaka og ákæra en á Íslandi gerist ekki neitt. Er hugsanlegt að þarna séu embættismenn að nota sér stöðuna til að pressa út meiri pening og tryggja sér hann fyrst, áður en þeir ganga í málið?
Þorsteinn Siglaugsson, 27.11.2019 kl. 23:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.