Mótsagnir í skólastefnu: fjölbreytileiki er aðgreining

Skóli án aðgreiningar er stefna um að allir, burtséð frá heilbrigði, félagslegum aðstæðum,  getu og hæfileikum fái sömu skólagöngu frá leikskóla í framhaldsskóla. Skóli fjölbreytileikans, á hinn bóginn, leggur áherslu á hve ólíkir nemendur eru að upplagi og fái atlæti til samræmis við aðgreininguna.

Í ítarlegu viðtali við Gunnlaug Magnús­son, lektor við há­skól­ann í Upp­söl­um, svífur yfir vötnum sú hugsun að skólinn ,,búti til" þessa eða hina gerðina af fólki og skuli gera það í nafni mótsagnakenndrar hugmyndafræði, sbr. skóla án aðgreiningar og skóla fjölbreytileikans.

En skólinn býr ekki til fólk. Leikskólakrakkar eru í öllum útgáfum og útskrifast úr framhaldsskóla í um það bil sömu útgáfum 14-16 árum síðar. Þekking og mannsbragur sem fólk tileinkar sér á þessu aldursskeiði umbreytir ekki einstaklingum, heldur þroskar. 

Á skólagöngunni menntast nemendur í námsgreinum sem að stórum hluta eru sígildar og byggja á lestri og reikningi. Samhliða skólasókn þroskast nemendur með fjölskyldum sínum, í vinahópum, íþrótta- og tómstundastarfi og á vinnumarkaði þegar þeir eldast.

Enginn veit hlutföll menntunar og þroska sem börn og unglingar sækja í ólíka iðju. Það liggur raunar í augum uppi að hver og einn lærir sem hann hefur vit og vilja til. Hvort heldur við uppvaskið heima, á knattspyrnuvellinum, á afgreiðslukassa í stórmarkaði, í skátunum eða heimspekiklúbbnum. Og vonandi eitthvað smávegis í skólanum.

Menntun, skólaganga, er gerð að vandamáli af fólki sem hugsar skólann í samhengi við þá tísku í uppeldisfræðum sem hverju sinni er uppi á pallborðinu í háskólum. Í lok síðustu aldar var það skóli án aðgreiningar en núna fjölbreytileiki. Afleiðingin er mótsögn sem leggur lamandi hönd á skólastarf.

Við ættum að leggja félagsfræðihugtökin til hliðar, þau eru hvort eð er seinni tíma tilbúningur. Menntun og menning, aftur, eru með okkur frá árdögum. Menning, sagði Þorsteinn Gylfason, er að gera hlutina vel. Og þannig á skólamenning að vera. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband