Laugardagur, 7. september 2019
Ísland og stórveldin 4
Fjögur stórveldi láta sig varða Ísland og norðurslóðir: Bandaríkin, Evrópusambandið, Kína og Rússland. Af þessum fjórum er eitt nýgræðingur í okkar heimshluta, Kína. Eftir Brexit mun Bretland, sem einu sinni var stórveldi, líklega láta til sín taka en þá í samstarfi við Bandaríkin.
Af stórveldunum eru Bandaríkin okkar nánasti bandamaður. Með samkomulagi við ríkisstjórn Ísland í seinna stríði reistu Bandaríkin hér herstöð og sátu hana allt til 2006. Reynslan af hersetunni er sæmileg, telur sá sem þetta skrifar og ólst upp í Keflavík og tók þátt í Keflavíkurgöngu til að mótmæla hersetunni.
Síðustu áratugi er Ísland í samstarfi við Evrópusambandið, í gegnum EES-samninginn. Reynslan af þeim samningi er ekki jákvæð en þó ekki alslæm. Vandinn við EES er að Evrópusambandið notar samninginn til að seilast til áhrifa í íslensk innanríkismál, nú síðast með orkupakkanum. Bandaríkin reyndu ekki að setja bandarísk lög á Íslandi.
Ísland átti farsælt samstarf við Sovétríkin sálugu, þótt aldrei kæmi til greina að við yrðum bandamenn enda kommúnismi og lýðræði sitthvað. Ef Ísland væri ekki eins og hundur í bandi utanríkisstefnu ESB væri samstarfið við Rússland farsælla en það nú er - með gagnkvæmum viðskiptaþvingunum vegna deila ESB og Rússlands um yfirráð í Úkraínu.
Kína reynir í krafti viðskiptaveldis og vaxandi herveldis að koma ár sinni fyrir borð á norðurslóðum. Ísland ætti að eiga eiga vinsamleg samskipti við Kína en gjalda varhug við að láta kínverska hagsmuni koma upp á milli okkar og Bandaríkjamanna. Það verður ekki bæði sleppt og haldið.
Smáþjóðir eiga að hlúa að næsta nágrenni sínu og treysta samstarf við þjóðir á líku reki. Þar skipta Grænlendingar, Færeyingar og Norðmenn mestu máli.
Varnarmálastefna Bandaríkjanna er í endurskoðun. Úrsögn Breta úr ESB mun hafa áhrif á norðurslóðir. Fyrirætlanir Kínverja eru enn óljósar. Þeir létu dátt við Grænlendinga en var settur stóllinn fyrir dyrnar af Dönum með atfylgi Bandaríkjanna. Rússar munu líklega vilja halda óbreyttri stöðu á norðurslóðum til að geta sinnt meginlandi Evrópu og nágrönnum í Asíu betur.
Aðalatriðið fyrir Ísland er dómgreindarlaust fólk ráði ekki ferðinni í utanríkismálum okkar, líkt og síðustu ár.
Stórveldin bjóða Íslandi samninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef ég man söguna rétt þá var Nikita Khrushchev fyrrum leiðtogi sovetríkjanna sem var frá Úkraínu sá sem gerði krímskaga hluta af Úkraínu 1954 en hann hafði áður verið hluti rússlands frá sautján hundruð of súrkál og þar áður hluti Ottomans veldisins.
Svartahafsfloti rússa er um allan krímskaga með aðalhöfn við Sevastopol.
Svo ekki líklegt að rússar láti hann nokkru sinni af hendi amk. ekki meðan ESB seilist til áhrifa á svæðinu.
Gísli Bragason, 7.9.2019 kl. 21:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.