Miðvikudagur, 4. september 2019
Óli Björn, ríkið, einkarekstur og pilsfaldakapítalismi
Óli Björn þingmaður skrifar pistil um ríkisrekstur, sem honum þykir yfirþyrmandi. Margt spaklegt þar en annað orkar tvímælis.
Óli Björn segir réttilega að almennt séu Íslendingar sammála um samfélagslega grunnþjónustu á sviði menntunar og heilbrigðis annars vegar og hins vegar innviða.
Þingmaðurinn fer út af sporinu þegar hann gagnrýnir að ríkisvaldið grafi undan einkarekstri lækna. Það er rangt. Læknar á markaði geta stundað sína iðju án afskipta ríkisins. En deilan snýst um hvort ríkið eigi að borga fyrir sjúklingana sem læknar í einkarekstri sinna.
Fyrirkomulagið, sem Óli Björn reynir að verja í heilbrigðiskerfinu, yrði svona í menntakerfinu. Kennarar með réttindi gætu opnað skóla, á hvaða skólastigi sem er, og fengið til sín nemendur sem ríkið borgaði fyrir. Allir sjá í hendi sér að slíkt fyrirkomulag virkar ekki; ríkið yrði blóðmjólkað. Enda kallast það pilsfaldakapítalismi.
Óli Björn tekur einnig fyrir Leifsstöð í Keflavík og vill að ríkið hætti að reka Fríhöfnina. Allt í sóma með það, Fríhöfnin er aðeins verslun. En í leiðinni vill þingmaðurinn selja Leifsstöð, þ.e. flugvöllinn sjálfan. Þar með yrðu seldir innviðir sem eiga að vera á hendi ríkisins.
Leifsstöð er einokun. Enginn flýgur til og frá landinu án viðkomu í Leifsstöð, nema kannski auðmenn með einkaþotur í Reykjavík. Maður getur sleppt því að versla við Fríhöfnina en ekki að nota Leifsstöð.
Og einokun, Óli Björn, lætur maður ekki í hendur einkaaðila. Bara alls ekki.
Athugasemdir
Einkavæðum gróðann, ríkisvæðum tapið, er inntakið í grein Óla Björns.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 4.9.2019 kl. 20:41
Ekkert að því að fleiri en einn aðili reki fríhöfn. Enda eru margir útsölustaðir í fríhöfninni.
Ekkert að því að "einkaaðilar" reki skóla, eða viltu leggja niður þá skóla sem ekki eru reknir af ríki og sveitarfélögum? Kallarðu rekstur Ísaksskóla pilsfaldakapítalisma?
Er það í lagi að meina íslenskum sjúklingum að notfæra sér einkastofur heima en ekki erlendis?
Það er eins og Óli Björn segir, sterk sú taug forræðistaug sem ræður þinni hugmyndafræði og fjölmargra annarra.
Það eru til fjölmörg rekstrarform sem ekki lúta hagnaðarsjónarmiðum en eru ekki undir hatti hins opinbera.
Ólafur Als, 4.9.2019 kl. 22:27
Ólafur Als.: Nefndu eitt rekstrarform, sem ekki er tengt hagnaðarvon. Hví ætti nokkur að fara út í rekstur, nema til að hagnast á því?...... Hugsjón? Hugsjón að tapa á rekstrinum, svo aðror hafi það sæmilegt? Trauðla.
Menntaskólinn Hraðbraut.....viltu ræða það?
Halldór Egill Guðnason, 4.9.2019 kl. 23:30
E.t.v. liggur vandamálið í skilgreiningu orða á borð við hagnaðarvon. Fjölmörg rekstrarform hafa það að markmiði að ekki skila arði í anda hefðbundinna einkafyrirtækja. Hugsjónir geta legið þar að baki, svo nokkuð sé nefnt. Íþróttafélög eru í eðli sínu rekin án hagnaðarvonar, stjórnmálasamtök, trúfélög, stór og lítil verkefni stéttarfélaga o.s.frv.
Hef annars ekkert á móti því að fyrirtæki séu rekin með arði, það er jú mælikvarði á hve vel þau standa sig. Þess konar rekstur ætti að vera mun víðar. Að gefa í skyn að Menntaskólinn Hraðbraut sé dæmi um hve forræðishyggja er af hinu góða er heldur kjánalegt, verð ég að segja. Eins og gefur að skilja eru mistök gerð í rekstri án tillits til eignarhalds eða rekstrarforms. Dæmi um slíkt er að finna allt í kringum okkur.
Ávallt munu þeir spretta fram sem vilja dásama forræðið. Í þeim býr vilji til þess að stýra lífi annarra á sem flestum sviðum. Ástæður þeirra eru af ýmsu tagi en yfirleitt má segja að þeir treysti sjálfum sér til þess að lifa eigin lífi en ekki öörum.
Ólafur Als, 5.9.2019 kl. 10:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.