Miðvikudagur, 28. ágúst 2019
Raforkan fyrst og nú fiskurinn: EES drepur sjálfsbjörg Íslands
EES-samningurinn drepur hægt en örugglega íslenska þjóðarbúið í dróma. Formaður sjávarútvegsnefndar ESB-þingsins hótar uppnámi EES-samningsins ef Íslendingar hætta ekki að veiða makríl sem er á beit í landhelgi okkar.
Viðbrögðin eru fyrirsjáanleg. Taugaveiklaðir embættismenn í stjórnarráðinu, sem óttast að missa ESB-spón úr aski, og þingmannshérar, einkum í Sjálfstæðisflokknum ef að líkum lætur, leggjast á eitt að friðmælast við Brusselvaldið; leyfa makrílnum að éta sig feitan í íslenskri landhelgi og verða ESB-ríkjum búhnykkur. Landinn situr eftir með tvær hendur tómar og sultardropa.
Skilaboðin eru að Íslendingar eigi að þiggja skít úr hnefa Evrópusambandsins og beygja sig undir útlenda valdboðið. Fimmta herdeild embættismanna djúpríkisins og málaliða við Austurvöll sjá um að innprenta þjóðinni þrælsótta við hverja stunu og hósta í Brussel.
Íslendingar verða að grípa til varna áður en það er um seinan. Tækifærið er núna að setja ágengu Evrópusambandi stólinn fyrir dyrnar. Látum sverfa til stáls á alþingi. Miðflokkurinn er í þeirri stöðu að krefjast frestunar á orkupakkanum en þingkosninga að öðrum kosti. Hvor tveggja yrði afgerandi skilaboð til Brussel og fimmtu herdeildarinnar: hingað og ekki lengra.
Þjóðin þarf að taka til máls í kosningum þar sem EES-samningurinn er undir. Á meðan ætti ekki að samþykkja nein nýmæli ættuð úr Tinna-landi.
Ef krafa Miðflokksins fengi ekki framgang er réttast að tala til jóla. Þjóðin hlustar.
Tengir makríldeiluna við EES | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.