Miðvikudagur, 24. júlí 2019
Markaðurinn trúir ekki á nýtt WOW - og ekki ég
Hlutabréf í Icelandair féllu í morgun, þegar meintur kaupandi að þrotabúi WOW gaf sig fram í viðtali. En þegar búið var að melta orð Michele Ballarin hækkuðu hlutabréfin og við lokun markaða voru bréf Icelandair 1,12% verðmætari í dag en í gær.
Hvað veldur? Mögulega þessi orð Ballarin: ,,Íslendingar og íslensk stjórnvöld þurfa valkost í flugi."
Skúli Mogensen gæti verið að tala í gegnum Ballarin með þessum orðum. Hvers vegna ætti bandarísk kona með engin tengsl við Ísland allt í einu að vilja kaupa þrotabú flugfélags?
Ef þessi geðþekka bandaríska kona er ekki leppur Skúla er sjálfsagt að bjóða hana velkomna og fínt að hún sjái sem flest viðskiptatækifæri hér á landi.
En allt viðtalið við konuna er ofhannað og ótrúverðugt eftir því.
Morgunljóst er að hvorki almenningur á Íslandi né stjórnvöld þurfa fleiri valkosti en nú eru fyrir hendi. Ein 14-16 félög fljúga hingað.
Sú geðþekka bandaríska segir þessi orð í markaðslegum tilgangi. Hér er fiskur undir steini.
Notar eigið fé við uppbyggingu WOW | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki myndi ég nú taka heita trú á því sem "markaðurinn" heldur Páll. Það væri að trúa um of á þá sem þar kaupa og selja.
Markaðurinn veit aldrei neitt. Hann heldur bara. Hann er eins og kjörkassi sem veit aldrei neitt fyrr en búið er að telja upp úr honum og þá er vitneskja hans of seint á ferðinni til að nýtast neinum, eins og sést á þeim sem þar kaupa það sem aðrir selja þeim.
Mörgum þótti furðulegt að Buffet skyldi kaupa Sees Candy 1972 fyrir slikk. WOW er vörumerki sem kostar að búa til og skapa. Tapinu sem þar var troðið niður í vörumerkið er eign sem kostaði mikla vinnu og svita að koma í heiminn. Hún er það sem kallað er "the dirty work" í sköpun þess sem elur af sér allar þær tekjur sem ríkissjóður og hagkerfi okkar geta yfir höfuð haft. Erfiðasta vinnan.
Apple kostaði 1,7 dali árið 2001, þegar Michael Dell sagði að loka ætti Apple og skila hlutafénu til baka til hluthafa. Hluturinn í Apple kostar hins vegar 208 dali í dag. Enginn trúði þá á Apple, en herra Allir trúðu á herra Dell, og fjölmiðlar mest. Dell er hins vegar afskráð af markaði í dag, á meðan hagnaður Apple er tvöfaldur á við samanlagaðan hagnað Microsofts og Google síðustu 12 árin.
Viðbrögð markaðarins er eins og að hlusta á garnagaul. Hvort skyldi maginn nú vera saddur eða soltinn? Ekki myndi ég taka mark á honum.
En ég viðurkenni að þetta er svo stórmerkilegt og stórskemmtilegt viðtal við frú Ballarin að maður sperrir upp eyrun og kemst í stuð. Og vonar að svona fólk sé ennþá til í raun og veru. Sjáum nú til. Sjáum nú til.
Kveðja
Gunnar Rögnvaldsson, 24.7.2019 kl. 21:06
Öðru hverju ber WOW enn á góma í fréttum.Var í seinustu viku að skoða Óbyggðasafn sem er innsti bærinn í Fljótsdalshéraði og heitir Egisstaðir rétt eins og kauptún héraðsins.Setjum upp heyrnatól sem skíra frá því sem fyrir augu ber sem er bæði leikbrúður og kvikmyndir.- - Í samtali við forstöðumann og eiganda,sagði hann okkur að ferðamönnum hefði snarlega fækkað eftir að WOW lagði upp laupana.Ekki man ég hvers vegna fjölgun Íslendinga þangað bjargaði rekstrinum,má vera sérstaklega vel hannaður stjörnukíkir í útihúsum sem sýnast í fyrstu vera hlaða. Eigandinn fékk þekktan stjörnufræðing til aðstoðar við uppsetningu þess og er þakinu rennt frá þegar skoða skal himingeyminn.
Helga Kristjánsdóttir, 25.7.2019 kl. 01:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.