Orkupakkinn og tilgangur stjórnmála

Tilgangur stjórnmála, í þeirri mynd sem þau eru rekin hér á landi, er að meginþættir samfélagsins séu skipulagðir þannig að þorri þjóðarinnar sé sáttur. Almenningur bæði fjármagnar stjórnmálakerfið og tekur þátt kosningum svo að tilgangur stjórnmálanna nái fram að ganga.

Orkumál eru augljóslega einn meginþátta samfélagsins. Af því leiðir eru völd yfir orkumálum þjóðarinnar sjálfkrafa pólitískt stórmál en ekki tæknilegt úrlausnarefni fárra útvaldra.

Mistök ríkisstjórnarinnar, og sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, er að láta eins og þjóðinni komi ekki við hvernig orkumálum landsins skuli háttað. Ríkisstjórnin ætlaði að keyra orkupakkann í gegn undir þeim fölsku forsendum að um væri að ræða smámál. 

Orkupakkinn var ekki tekinn til umræðu fyrir þingkosningar og heldur ekki EES-samningurinn sem veldur því að orkupakkinn er á dagskrá alþingis. Á síðustu mánuðum vaknar almenningur til vitundar um að fullveldi þjóðarinnar í orkumálum er í hættu.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar, og sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, voru kolröng. Í stað þess að kannast við að EES-samningurinn var redding á sínum tíma vegna útþenslu Evrópusambandsins láta stjórnvöld eins og samningurinn sé meitlaður í stein og skuli gilda til eilífðarnóns. ESB er ekki lengur í útþenslu, Brexit er skýrasta dæmið. Ísland hafnaði að ganga í ESB um áramótin 2012/2013. Hvorttveggja átti að leiða til þess að stjórnmálakerfið á Íslandi tæki EES-samninginn til gagnrýnnar meðferðar. Það brást.

Orkupakkinn er þannig afleiðing af tvennum mistökum. Í fyrsta lagi að EES-samningurinn skuli ekki vera í gagnrýnni endurskoðun - sem myndi sjálfkrafa setja fyrirvara á innleiðingarferli laga og reglugerða ESB. Í öðru lagi er forræði þjóðarinnar yfir raforkumálum eitt og sér slíkt stórnál að orkupakkann hefði átt að ræða í þaula fyrir kosningar.

Enn er orkupakkinn ekki afgreiddur frá alþingi. Enn er tími að bæta fyrir ofangreind mistök. En menn þurfa að sjá að sér og viðurkenna að tilgangi stjórnmála hafi ekki verið sinnt sem skyldi. Og þar ber stærsti stjórnmálaflokkurinn mesta ábyrgð. Nema hvað.


mbl.is Gjá milli þingflokks og grasrótar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

EES sinnar tönnlast enn á 500 milljóna markaði alveg eins og að Bretar hafi ekki skilið eftir sig neitt gat?

Halldór Jónsson, 22.7.2019 kl. 11:58

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Orkupakkamálið er mesta hneisa íslenskra stjórnmála síðan Icesave reið húsum við Austurvöll. Við höfum lítið lært. Íslenska þjóðin mun þó með einum eða öðrum hætti hafa vit fyrir grunnhyggnum, ESB-sinnuðum og illa upplýstum alþingismönnum eins og reynslan sýnir.
Hvernig ætla menn svo að bregðast við 4. orkupakka ESB, þar sem beinlínis er ætlað að ryðja úr vegi öllum hindrunum á raforkutengum á milli landa? 

Júlíus Valsson, 22.7.2019 kl. 13:22

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Orkupakkinn jafnóþarfur sem öskubakkinn.

Helga Kristjánsdóttir, 22.7.2019 kl. 13:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband