Þriðjudagur, 11. júní 2019
Davíð, Björn og tvær ólíkar útgáfur af frelsi
Davíð Oddsson og Björn Bjarnason ræða frelsið út frá EES-samningnum og þriðja orkupakkanum. Davíð skrifar í leiðara Morgunblaðsins í dag:
Nú er það raunar svo að orðið frjálslyndi er notað með misjöfnum hætti í umræðum um stjórnmál og því varla nothæft lengur. Stundum er átt við klassískt frjálslyndi, þar sem sá frjálslyndi styður frelsi einstaklingsins og vill hemja útþenslu og yfirgang ríkisins, en stundum er þvert á móti átt við vinstri stefnu þar sem hinn frjálslyndi er hallur undir aukið ríkisvald og hefur takmarkaðar áhyggjur af því þó að það þrengi að einstaklingnum.
Í framhaldi ræðir Davíð gagnrýni Arnars Þórs Jónssonar á 3. orkupakkann sem skerðir frelsi Íslendinga til að fara með þá náttúruauðlind sem raforka verður til úr.
Björn Bjarnason skrifar sl. laugardag:
Á Morgunblaðinu er lýst efasemdum um frjáls viðskipti eins og þau þróast með EES-samningnum og hart barist gegn þriðja orkupakkanum. Þá sætir framganga Sjálfstæðisflokksins og þingmanna hans harðri gagnrýni.
Björn Bjarnason gefur sér að EES-samningurinn sé ,,frjáls viðskipti". Davíð Oddsson er aftur þeirrar skoðunar að EES-samningurinn sé til marks um vinstra ,,frjálslyndi" ríkisafskipta þar sem yfirþjóðlegt vald þrengir að fullveldi þjóða og sjálfræði einstaklinga.
Í áratugi eru þeir Davíð og Björn samherjar í pólitík og alltaf undir merkjum Sjálfstæðisflokksins. Frelsið er nafn á tímariti sem þeir báðir studdu með ráðum og dáð en Hannes Hólmsteinn Gissurarson ritstýrði lengst af.
Umræðan um þriðja orkupakkann leiðir í ljós gagnólíkan skilning helstu forystumanna Sjálfstæðisflokksins á frelsinu. Hér er komin skýringin á því hvers vegna það er Sjálfstæðisflokknum erfiðara en öðrum stjórnmálaflokkum að takast á við orkupakkann. Grundvallarmál er í húfi.
Frelsi er nátengt hugmyndinni um sjálfstæði og að einstaklingar og þjóðir hafi forræði eigin mála. Engin spurning er að þriðji orkupakkinn flytur úr landi hluta af fullveldi okkar. Ef við samþykkjum pakkann frá Brussel er skert frelsi okkar til að taka ákvarðanir um mikilvæga náttúruauðlind. Við eigum ekki að samþykkja þá frelsisskerðingu.
Athugasemdir
Það er þungbært öllum sjálfstæðismönnum að vera í bullandi andstöðu við flokksforustuna, en hvað eiga menn að gera þegar forystan fer svona gersamlega út af sporinu? Við upplifðum þetta líka í Icesave málinu. Þá fylgdum við Davíð réttilega gegn flokksforustunni sem var tilbúin að gefa eftir rétt okkar. Aftur stendur valið milli forystunnar og grundvallarstefnu flokksins. Hljóta ekki sannir Sjálfstæðismenn að standa með stefnunni. Það geri ég.
Ragnhildur Kolka, 11.6.2019 kl. 11:14
Ég gekk ekki úr Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn gekk úr mér.
Halldór Jónsson, 11.6.2019 kl. 14:54
Svo mælti einn góður Sjálfstæðismaður eitt sinn
Halldór Jónsson, 11.6.2019 kl. 14:55
Ég gekk úr Sjálfstæðisflokknum og í kjölfarið gekk Sjálfstæðisflokkurinn af göflunum. Ég er enn sjálfstæðismaður þó svo að ég fylgi ekki þeim flokki lengur sem kennir sig við sjálfstæðið þar sem flokkurinn er ekki lengur að fylgja sjálfstæðisstefnunni, hann hætti því við Icesave III.
Tómas Ibsen Halldórsson, 11.6.2019 kl. 15:08
Börnin voru orðin leið á öllu dótinu sem þau eiga,þá datt þeim í hug að leika með kvikasilfur,kljúfa í marga púnkta og reyna svo að sameina í einn hlunk; munnmæli! Heilbrigðir eru jafna með 37*
Helga Kristjánsdóttir, 11.6.2019 kl. 21:37
Góð grein Páll Þetta er kölluð innbyrðis flokkapólitík. Menn kunna ekki að taka ákvarðanir saman og standa með henni. Forystan verður að fórna hausum sem er á móti ákvörðunum sem meirihlutinn tekur þ.e. fórna þeim sem eru að baknagast eftir að meirihlutinn er búin að ná saman.
Valdimar Samúelsson, 11.6.2019 kl. 22:05
Það er gott að vera 50. maðurinn til að læka þennan pistil.
Glögglega athugað hér hjá Páli, áfangi er þetta í nauðsynlegri krufingu bæði íhaldsmanna og frjálslyndra á meginforsendum þessa níræða flokks og hvort hann eigi kannski framtíð fyrir sér. Það hygg ég hann ekki eiga, ef hugmyndir Björns Bjarnasonar fá að ráða, nema þá með e.k. Framsóknarfylgi.
Vitið er mest uppi í Hádegismóum, takmarkaðra þó á Mbl.is en í Mogganum sjálfum.
Öflugt þetta frá Ragnhildi Kolka, sem var hennar von og vísa, og gott í sama dúr frá Halldóri og Tómasi. (Um það sem Helga og Valdimar ræða, veit ég minna.)
Jón Valur Jensson, 12.6.2019 kl. 00:54
... nsl. krufningu!
Jón Valur Jensson, 12.6.2019 kl. 00:55
Það er ekki bara hugtakið frjálslyndi sem er orðið málum blandið heldur líka hugtakið sjálfstæði. Nafn flokksins er allavega þversögn í íslenskri pólitík.
Ef flokkurinn í þessari mynd hefði verið samur forðum, þá væri enn danskur fáni á alþingishúsinu.
Flokkurinn gekk formlega úr mér í síðustu viku og ég held að ég sé ekki sá eini.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.6.2019 kl. 04:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.