Þriðjudagur, 4. júní 2019
Brexit og EES-exit Íslands
Bretar fengu nóg af yfirþjóðlegu valdi Evrópusambandsins og kusu Brexit. Íslendingar eru fullsaddir af yfirgangi Evrópusambandsins sem notar EES-samninginn til yfirtöku á náttúruauðlind þjóðarinnar, orku fallvatnanna.
3. orkupakkinn er prófsteinn á það hvort EES-samningurinn sé í reynd aukaaðild að ESB, þar sem Brussel fyrirskipar og Ísland hlýðir, eða hvort samningurinn taki mið af þeirri staðreynd að Ísland hefur kosið að standa utan ESB.
Ef svo fer að Ísland verði knúið að innleiða 3. orkupakkann er einboðið að taka upp markvissa baráttu fyrir uppsögn EES-samningsins.
Eins og Björn Bjarnason benti á þegar í upphafi aldar er orkustefna ESB Íslandi óviðkomandi og eðlilegt að við fáum undanþágu frá henni. En bæði fyrir vangá stjórnmálamanna og einbeittan ESB-áhuga embættismanna stendur Ísland frammi fyrir því að afsala sér forræði raforkumála til Brussel. Þeir sem núna reyna að fegra orkupakkann þriðja geta ekki hugsað sjálfstætt, þeim er miðstýrt.
Það er óboðlegt fullvalda ríki að framselja mikilvæga náttúruauðlind til framandi ríkjabandalags.
Ísland er hlynnt alþjóðasamskiptum á forsendum jafnræðis. Ekkert jafnræði er í þeirri ráðstöfun að náttúruauðlind þjóðarinnar fari undir forræði Evrópusambandsins.
Bresk stjórnmál eru í uppnámi vegna Brexit. Virðulegir flokkar með langa sögu, Íhaldsflokkuirnn og Verkamannaflokkuirnn, eru klofnir í herðar niður. Þannig fer þegar yfirþjóðlegt vald fær að leika lausum hala í innanlandsmálum.
Þriðji orkupakkinn er Brexit-augnablik Íslands. Alþingi stendur frammi fyrir tveim kostum. Að halda sæmilegan innanlandsfrið og hafna orkupakkanum annars vegar og hins vegar að efna til varanlegs ófriðar sem mun ríða stjórnmálaflokkum á slig. .
Látum skynsemina ráða, afþökkum þriðja orkupakka ESB og töpum ekki samstöðunni um þjóðarhag.
Brexitflokkurinn með mest fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.