Léleg rök, lýðræðið og orkupakkinn

Í lýðræði hlusta stjórnvöld á umræðu almennings. Gagnkvæmur skilningur borgara og stjórnvalda er að það sé báðum fyrir bestu. Borgurum finnst þeir búa við stjórnarfar sem ber hag þeirra fyrir brjósti og yfirvöld eiga hægara að stjórna þegar þeim er treyst.

Í umræðu takast á rök. Þegar álitaefnið er flókið, t.d. skattalög, er erfitt að átta sig á gæðum raka til stuðnings tiltekinni breytingu. Þegar umræðuefnið er einfalt, svo sem 3. orkupakkinn, er snöggtum greiðara að meta rökstuðninginn.

Rökstuðningur þeirra sem vilja samþykkja orkupakka 3 er í meginatriðum þessi:

1. það er hættulaust að samþykkja aðild að orkusambandi ESB, enda áhrif hans lítil.

2. við eigum að samþykkja 3. orkupakkann þar sem við höfum samþykkt pakka 1 og 2.

3. ef við samþykkjum ekki orkupakkann er aðild okkar að EES-samningnum í uppnámi.

Andstæðingar 3. orkupakkans segja á móti:

1. ESB tekur sér íhlutunarrétt í raforkumálum þeirra ríkja sem eiga aðild að orkusambandinu - sem Ísland yrði með samþykkt orkupakkans.

2. samþykkt orkupakka 1 og 2 var ekki loforð af hálfu Íslands að halda áfram á vegferð ESB i átt að miðstýringu orkumála.

3. engar heimildir eru fyrir því frá ESB að EES-samningurinn komist í uppnám þótt Ísland standi utan orkusambands ESB.

4. Ísland er ótengt raforkumarkaði ESB og því engin ástæða að taka upp ESB-reglur.

5. EES-samningurinn gerir ráð fyrir að EFTA-ríkin geti afþakkað lög og reglugerðir sem augljóst er að eigi ekki við um viðkomandi lönd. Ísland tekur t.d. ekki upp ESB-gerðir sem eiga við um skipaskurði og járnbrautalestir.

Hlutlaust mat á rökum með og á móti sýna svart á hvítu að rökin fyrir eru sýnu lélegri. Þau eru mótsagnakennd (orkupakkinn hefur lítil áhrif, segja þeir, en leggja velferð ríkisstjórnarinnar að veði) og byggja ekki á heimildum, sbr. að enginn ESB-heimild er fyrir uppnámi EES-samningsins.

Ef umræðan um orkupakkann yrði settur í samhengi við knattspyrnuleik væri staðan 4-0 fyrir andstæðinga 3OP og skammt til leiksloka.

Það er lýðræðinu hættulegt þegar léleg rök eru tekin fram yfir gild rök, og því hættulegri sem málefnið er stærra. Stjórnvöld sem ekki taka mark á umræðu almennings sýna kjósendum hroka. Þegar yfirvöld taka ekki mark á umbjóðendum sínum grafa þau undan trausti sem er forsenda lýðræðis.

Enn er tími fyrir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að ná áttum í þriðja orkupakkamálinu. Stjórnin yxi í áliti að taka mið af umræðu almennings.   


mbl.is Spilling veldur mestum áhyggjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í umsögn Landsnets um orkupakkann er það mært, hve miklum breytingum hann fái örugglega áorkað hér á landi. 

Á sama tíma segja talsmenn hans á þingi, að það sé pottþétt að hann hafi engin áhrif, enda gerðir fyrirvarar um sæstreng sem jafngildi belti og axlaböndum. 

Þetta stangast á.

Þar að auki sagði Friðrik Árni Friðriksson Hirst í viðtali við mbl.is að fyrirvararnir, eins og þeir eru í núverandi formi ályktunar Alþingis, fælu í sér "stjórnmálalega óvissu", en sú hætta væri miklu minni ef sameinaða EES nefndin féllist á fyrirvarann í textanum, sem Íslendingar samþykktu á vettvangi nefndarinnar sem hluta af EES-tengslum okkar. 

Ómar Ragnarsson, 4.5.2019 kl. 12:04

2 Smámynd: Júlíus Valsson

4-0 er burst

Júlíus Valsson, 5.5.2019 kl. 19:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband