Trump og máttur einstaklingsins

Trump var sæmilegur auðmaður og þokkalega þekkt sjónvarpsstjarna þegar hann ákvað að sækjast eftir embætti forseta Bandaríkjanna. Þó nokkrir Ameríkumenn eru loðnir um lófana og slatti þekktur í sjónvarpi. Fæstir verða forsetar.

Hvers vegna Trump?

Tvær meginkenningar eru um einstaklinga og sögulega þróun. Í fyrsta lagi að stórir einstaklingar móti söguna. Alexander mikli, Sesar, Ágústus, Jesú, Múhameð spámaður, Djengis Kahn, Martin Lúther, Karl Marx, Darwin, Lincoln, Lenín, Hitler og Stalín og fáeinir aðrir marka djúp spor í söguna. En hefði sagan orðið önnur ef þeirra hefði ekki notið?

Í öðru lagi er kenningin um að sögulegar aðstæður leiði einstaklinga til áhrifa og valda sem svara kalli tímans. Samkvæmt þessari kenningu eru persónur leiksoppar örlaganna - sögunnar - en ekki gerendur.

Stórvirki skáldskapar s.s. Ilíonskviða og Biblían gefa til kynna að sögupersónur séu þrælar frásagnar án dauðlegs höfundar.

En hvað með Trump? Hann er ekki goðsögn heldur lifandi maður af holdi og blóði - þó ekki í mörg ár enn. Er karlinn dæmi um mátt einstaklingsins að skapa söguna? Eða er hann verkfæri afla sem engir dauðlegir ráða við?

Þegar stórt er spurt hlýtur svarið að vera einfalt. Til dæmis þetta: Trump er réttur maður á réttum stað á réttum tíma.

 

 


mbl.is Vilja kæra Trump fyrir embættisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Sammála.

Sigurður Kristján Hjaltested, 20.4.2019 kl. 21:33

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Stundum skapast ástand, sem kallar á stórtækar breytingar frekar en að mikilmenni þurfi til að stjórna tímamóta byltingu.

Gott dæmi um það er borgarstjóratíð Jóns Gnarr, sem byggðist á því, að meirihluti kjósenda var búinn að fá upp í kok af dæmalausri ringulreið í borgarmálum í Reykjavík með sjö borgarstjóra á sjö árum. Þessi óreiða skóp þá hugsun, sem styrktist í Hruninu, að allt væri betra en að halda svona áfram. 

Skipti þá engu máli þótt mál róuðust í tíð Hönnu Birnu þegar fulltrúar allra flokka tóku höndum saman við að stýra borginni farsællega. 

Dúnalognið virkaði alveg öfugt; það gat litið út eins og algert aðgerðarleysi og máttleysi. 

Jón Gnarr varð því réttur maður á réttum stað og kom ágætlega út þau fjögur ár sem hann sat í stóli borgarstjóra. 

Nú er svipað uppi á teningnum í Úkraínu, þar sem ríkir einhver einhver grónasta og mesta spilling á byggðu bóli í stjórnmálum og þjóðlífi. 

Slíkt ástand getur skapað eins konar tómarúm, sem hentar fyrir alveg nýja menn með nýja hegðun og atferli til þess að sækja inn í.  

Elítan ameríska með gróna spillingu í kringum þingið og stjórnkerfið í Washington kallaði á aðsópsmikinn mann af gerólíku sauðahúsi sem "litli maðurinn" gæti laðast að sem sinn fulltrúa við að gera skurk í ríkjandi ástandi. 

Sá maður var Trump, sem kom eins og hvítur stormsveipur inn í tómarúm, sem beið eftir breytingum. 

Þetta gerist oft á fleiri sviðum. Á árunum í kringum 1990 báru tvær ofurstjörnur, Michael Jackson og Madonna ofurhjálm yfir annað popptónlistarfólk í krafti gríðarlega uppmagnaða stórtónleika þar sem nýjasta og áhrifamesta tækni var notuð til að búa til yfirgengilega ærandi sjónar- og heyrnarspil.  

Slíkt gat ekki gengið upp á við til lengdar, og það myndaðist þörf fyrir hófstillta og einfalda tónlist í algerri mótsögn við hamaganginn og lætin. 

Þegar Bjðrk Guðmundsdóttir spratt fram, sótti hún inn í ríka þörf fyrir eins konar tómarúm sem myndaðist, þar sem þurfti ekki nema eina einlæga unga hæfileikakonum með einstæða rödd barnslegrar einlægni og persónutöfra. 

Björk var rétt kona á réttum stað og tíma til birtast einmitt þá og þarna; fimm árum fyrr hefði það verið vonlaust.  

Ómar Ragnarsson, 20.4.2019 kl. 23:33

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

....Og niðurstaðan; hann er engan veginn rangstæður,það er enginn fótur fyrir því.

Helga Kristjánsdóttir, 21.4.2019 kl. 02:11

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Gott svar Páll. Það þarf stóran til að svara svona. Trump var eins og sendur af Guði þegar mest á þurfti að halda. Allt sem hann gerir og berst fyrir hefir verið rétt hingað til.

Valdimar Samúelsson, 21.4.2019 kl. 09:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband