Laugardagur, 2. mars 2019
Orkupakkinn, umræðan og hlutverk stjórnvalda
Stjórnvöld eiga að vinna að almannahag. Það er frumskyldan sem tilveruréttur stjórnvalda byggir á. Við höfum umræðu til að leiða fram kosti og galla afmarkaðra mála og hvernig almannahag er best borgið.
Þriðji orkupakkinn hefur fengið ítarlega umræðu í marga mánuði. Margir taka til máls og styðjast við opinber gögn, pólitíska vitund og dómgreind. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fundað og Framsókn efndi til umræðu, þar sem bæði formaður og varaformaður hlýddu á sjónarmið með og á móti 3. orkupakkanum.
Til að gera langa sögu stutta eru embættismenn hlynntir innleiðingu orkupakka Evrópusambandsins en allur þorri manna, sem ekki eiga beinna hagsmuna að gæta, er á móti.
Sjónarmið embættismanna er að ESB viti hvað Íslendingum er fyrir bestu. Þetta eru sömu viðhorf og voru ríkjandi þegar ESB-umsókn Samfylkingar var á dagskrá 2009-2012/2013. Embættismenn eru hvorki betri né verri en annað fólk, þeir hugsa um sína hagsmuni. Og þeirra tilvera hverfist um Brussel.
Allur almenningur, sem ræðir 3. orkupakkann, er á móti innleiðingu hans. Viðtaka pakkans felur í sér framsal á valdi yfir íslenskum orkumálum til ESB. Og almenningur segir nei, það viljum við ekki.
Þegar almannavilji er jafn skýr og ótvíræður er það skylda stjórnvalda að taka mið af almannahag og hafna fyrir hönd þjóðarinnar viðtöku þriðja orkupakka Evrópusambandsins.
Frestar orkupakka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.