Laugardagur, 12. janúar 2019
Samherjamenn lesa ekki rétt í spilin
Eigendur Samherja eru meðal ríkustu Íslendinga. Ríkidæmið varð til með dugnaði og áræðni, segja sumir, á meðan aðrir telja að fiskveiðiauðlind þjóðarinnar sé meginástæðan og bæta við; sem Samherji fékk á slikk.
Eftir hrun var Samherji tekinn til rannsóknar af þess bærum yfirvöldum, Seðlabankanum, vegna gruns um brot á reglum um gjaldeyri. Eigandi og forstjóri Samherja var fyrir hrun stjórnarformaður gjaldþrota banka, Íslandsbanka. Skýrsla alþingis dregur upp þá mynd af bankakerfinu fyrir hrun að bankarnir voru rændir að innan. Forstjórinn er sem sagt enginn kórdrengur í fjármálum.
Eftir málarekstur í kerfinu var Samherji sýknaður af misferli með gjaldeyri. Í stað þess að una niðurstöðunni sáttir og glaðir leita Samherjamenn hefnda, vilja afsögn seðlabankastjóra.
Tvær ólíkar niðurstöður eru mögulegar. Í fyrsta lagi að eftirmálin tapast Samherjamönnum. Norðlendingarnir sýndu sig hvorki stóra í sigri né auðmjúka í tapi. Í öðru lagi gætu Samherjamenn haft betur í seinni rimmunni við yfirvöld, t.d. með því að seðlabankastjóri yrði rekinn. Það yrði Norðlendingunum sýnu dýrkeyptara.
Ef það kemur á daginn að útgerðarauðvaldið geti svínbeygt ríkisvaldið er komin upp pólitísk staða sem beinlínis krefst þess að almannavaldið grípi í taumana og setji auðvaldinu stólinn fyrir dyrnar. Einboðið er hvaða leið verður valin; gera Samherjavaldið fátækt - með því að hækka veiðigjöldin.
Hefndaleiðangur Samherjamanna er dæmdur til að mistakast á hvorn veginn sem er. Norðlendingarnir ættu að gera sjálfum sér greiða og hætta strax þessu feigðarflani.
Katrín fundaði með Samherjamönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Höldum því til haga að Samherjamenn voru ekki sýknaðir af meintum brotum. Rannsókn var hætt og málarekstur felldur niður vegna tæknigalla í reglugerðinni sem Seðlabankinn var að fara eftir.
Svo þegar S.Í beitir eina úrræðinu sem eftir var , að leggja á stjórnvaldssekt þá mistúlkar forstjórinn niðurstöðu málsins með því að hann, starfsmennirnir og fyrirtækið hafi verið sýknað af meintum brotum. Þvílík afneitun! Hvers vegna bugaðist fjármálastjórinn á meðan á rannsókn stóð? Ef allt hefði verið eftir ströngustu reglum þá hefði sá maður ekki eina mínúta látið yfirstandandi rannsókn trufla sitt daglega líf og starf innan þessa "frábæra" fyrirtækis.
Þess í stað brotnaði hann og hætti störfum vegna "kulnunar" Eru kannski fleiri að bugast undir stjórn þessara frænda sem urðu ríkir á fjármálagerningum fyrst og fremst en síður á útgerð....
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 12.1.2019 kl. 16:57
"Ef það kemur á daginn að útgerðarauðvaldið geti svínbeygt ríkisvaldið er komin upp pólitísk staða sem beinlínis krefst þess að almannavaldið grípi í taumana og setji auðvaldinu stólinn fyrir dyrnar. Einboðið er hvaða leið verður valin; gera Samherjavaldið fátækt - með því að hækka veiðigjöldin."
Þetta er ákaflega einkennileg staðhæfing svo ekki sé meira sagt: Hér er í raun verið að segja að ef spilltur og óheiðarlegur ríkisstarfsmaður misbeitir valdi sínu til að fremja lögbrot á borgara, og borgarinn nær að lokum fram rétti sínum, sé það skylda ríkisvaldsins að hirða af honum eignir hans!
Þessi hugsunarháttur þekkist vissulega í löndum á borð við Rússland, þar sem lög og réttur ná afar skammt. En það er furðulegt að sjá slíkt predikað hér. Maður þakkar bara fyrir að fólk á borð við Pál Vilhjálmsson sé ekki hér við völd.
Þorsteinn Siglaugsson, 12.1.2019 kl. 17:34
Sæll Páll,
Semsagt ef opinber stofnun er gerð afturreka með málarekstur gegn fyrirtæki eða einstakling þá á ríkið eða viðkomandi stofnun að fara í hefndarvíking gegn viðkomandi og kenna fólki lexíu fyrir að vera saklaust! Einhvern veginn finnst mér þetta sitja öfugt á merinni...
Kveðja
Arnór Baldvinsson, 13.1.2019 kl. 02:39
Almenna reglan í opinberri málssókn er að ríkisvaldið fer ekki fram með ákæru nema meiri líkur en minni séu á sekt. Dómstólar skera úr um vafann.
Mál Seðlabanka gegn Samherja var unnið samkvæmt þessari reglu. Málið fór fyrir dómstóla og Samherji hafði sigur.
Þar með hefði málinu átt að vera lokið.
En Samherji beitir afli sínu til hefnda, heimtar afsögn embættismanns sem starfaði í almannaþágu.
Það hefur pólitískar afleiðingar ef Samherji kemst upp með það að knésetja ríkisvaldið - flæma menn úr opinberu starfi sem gera ekki annað en vinna störf sín.
Páll Vilhjálmsson, 13.1.2019 kl. 09:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.