Fimmtudagur, 27. desember 2018
Solla í stöðnun, Kata í nýsköpun
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir leiddi Samfylkinguna til ríkisstjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokk árið 2007. Samstarfið átti að sýna að Samfylkingin væri stjórntæk, vafi lék á. Samið var um stöðnun. Sjálfstæðisflokkur stjórnaði í anda nýfrjálshyggju og Samfó dinglaði með án nokkurs pólitísks framlags.
Hrunið 2008 batt endi á tálsýnina að Samfylkingin væri stjórntæk. Flokkurinn fylltist mikilmennskubrjálæði og krafðist þess að móðurflokkur íslenskra stjórnmála, Sjálfstæðisflokkur, tæki að sér að gera landið að hjálendu ESB. Í framhaldi sprengdi Samfylkingin ríkisstjórnina.
Þegar Katrín Jakobsdóttir tók Vinstri græna í stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fyrir rúmu ári stóð valið á milli stjórnar eða varanlegrar stjórnarkreppu. Katrín gerði kröfur, fékk t.a.m. forsætisráðuneytið, sem Ingibjörg Sólrún gat ekki látið sig dreyma um.
Katrín segist líta á samstarfið sem pólitísk nýsköpun.
Það má velta fyrir sér, í ljósi sögunnar, hvers vegna aldrei kom til tals að kenna samstjórn krata og frjálshyggjumanna 2007 við framþróun. Sögulega gætu dómsorðin um stjórnarmyndunina 2007 orðið þau að þar mættust pólitískar stefnur, alþjóðlegur kratismi og kreddufrjálshyggja, sem báðar voru komnar vel fram yfir síðasta söludag.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.