Laugardagur, 17. nóvember 2018
Maðurinn, lögmálin og trúin
Mælieining eins og metri fær löggildingu í frönsku byltingunni fyrir 200 árum. Í gamla stjórnarfarinu voru margar mælieiningar notaðar. Nú skyldi samræma og staðla.
Án almennra mælieininga er óreiða. Maðurinn vill skipulag. Þegar framandi menningarheimar mætast er brýnast að finna ,,rétta" mælingu. Á 15. öld tóku að sigla til Íslands enskir sjómenn og þýskir að kaupa skreið og selja sinn varning. Eftir nokkra reynslu af þeim viðskiptum hittust Íslendingar á alþingi og samþykktu Píningsdóm 1490.
Í Píningsdómi er krafist að útlendingar fari með friði og stundi viðskipti eftir mælieiningum ,,sem at fornv hefer verid hier j landit." Maðurinn þarf aðferð til að mæla þyngd og rúmmál nauðsynja löngu áður en hann notar aðferðirnar til að skrásetja svokölluð náttúrulögmál.
Allt frá vísindabyltingunni í upphafi nýaldar er skilningur manna á lögmálum náttúrunnar settur fram í frásögnum. Sagan um eplið sem féll á höfuð Newton, og leiddi til uppgötvunar á þyngdarlögmálinu, varð til í meðförum Voltaire, sem hitti frænku Newton og rakti úr henni garnirnar.
Þyngdarlögmálið var vitanlega ekki uppgötvað af Newton. Lögmál í náttúrunni, ef þau eru til, eru ekki uppgötvuð af manninum. Annað hvort eru lögmál eða ekki - óháð manninum. Eina framlag mannsins er að setja saman aðferð til að lýsa meintum lögmálum. Aðferðin er í þeim skilningi skáldskapur að hún er ekki hluti af náttúrunni heldur tilbúningur.
Tölur og málfræði finnast ekki í náttúrinni. Maðurinn bjó hvorttveggja til í því skyni að koma reglu á óreiðuna sem blasti við, bæði úti í hinum stóra heimi og innra með honum sjálfum. Maðurinn þarf reglu til að lifa með sjálfum sér og öðrum.
Fram yfir vísindabyltinguna og frönsku stjórnarbyltinguna var trúin regluverkið sem treyst var á. Trúin svarar bæði spurningum þessa heims og eilífðarinnar.
Vegna innbyggðra takmarkana geta vísindin ekki sannað eitt eða neitt. Þau geta á hinn bóginn afsannað kenningar um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í heiminum. Fyrir utan það, sem að ofan segir, að aðferðin til að lýsa náttúrulögmálum er skáldskapur, þá vita vísindamenn ekki hvort þeir eru að lýsa heild eða aðeins brotabroti af heildinni. Þess vegna geta þeir ekkert sannað, aðeins afsannað.
Síðustu tvær aldirnar eða svo snýr maðurinn baki við trú til að skilja heiminn, einkum á vesturlöndum, og leitar svara í vísindum um hvernig tilverunni sé háttað. En vísindi svara aðeins hagnýtum spurningum um nauðsynjar; hvað er kíló þungt? Um leið og vísindin eru spurð flóknari spurninga, og beðin að sanna svörin, er viðkvæðið í grunninn það sama og hjá miðaldakirkjunni. Við verðum að trúa.
Kílóið var endurskilgreint með viðhöfn. Viðstaddur sagði athöfnina ,,tilfinningaþrungna". Frásögnin er falleg og hátíðleg. Eins og kirkjuathöfn.
Kílógrammið endurskilgreint | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þín orð:
"Tölur og málfræði finnast ekki í náttúrinni. Maðurinn bjó hvorttveggja til í því skyni að koma reglu á óreiðuna sem blasti við, bæði úti í hinum stóra heimi og innra með honum sjálfum. Maðurinn þarf reglu til að lifa með sjálfum sér og öðrum".
Ég vil meina að 95% allra tungumála á jörðinni og margar stærðfræðiformúlur eigi uppruna sinn frá háþroskuðum gestum frá öðrum plánetukerfum í geimnum sem að komu til jarðarinnar í fyrndinni en hafi ekki verið búin til af jarðneskum mönnum sem að þróuðust frá öpum fyrir röð einhverra stökkbreytinga.
Jón Þórhallsson, 17.11.2018 kl. 15:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.