Laugardagur, 13. október 2018
Lýðhyggja viðbrögð við alþjóðavæðingu
Lýðhyggja, eins og hún birtist í kjöri Trump og Brexit, er viðbragð við alþjóðavæðingu síðustu áratuga. Almenningur kaus Trump til að loka á útflutning starfa og innflutning flóttamanna. Bretar kusu Brexit til að hefta straum innflytjenda, vildu verja menningu sína og lífshætti.
Elítur vesturlanda eru fyrst núna, tveim árum eftir Trump og Brexit, að átta sig á eðlisbreytingu stjórnmála. Robert Peston, fyrrum viðskiptaristjóri BBC, viðurkennir að stofnunin mislas almenning í aðdraganda Brexit. Die Welt í Þýskalandi segir lýðhyggju komna til að vera.
Alþjóðavæðing síðustu áratuga sleit í sundur almenning og samfélagið. Kjósendum var talin trú um að það skipti engu máli hver niðurstaða kosninga yrði, þeir myndu alltaf fá sömu útkomu: aukna alþjóðavæðingu.
Þegar menn eins og Trump komu á sjónarsviðið og buðu þjóðhyggju í stað alþjóðavæðingu fengu þeir meðbyr. Lýðhyggja samtímans liggur einkum hægra megin á litrófi stjórnmálanna. Vinstriflokkar eru almennt alþjóðasinnaðir.
Fyrstu viðbrögð vinstrimanna við pólitískum jarðskjálftum 2016 var að fordæma lýðræðið er gæfi svona ,,skakka" niðurstöðu. Þar með grófu vinstrimenn sína eigin gröf. Án lýðræðis er ekkert umboð.
Upp á síðkastið reyna frjálslyndir og vinstrimenn að átta sig betur á hvað fór úrskeiðis. Útgáfur eins og New Republic, sem eru stækir andstæðingar Trump, játa að forsetinn fer ekki með fleipur í uppgjöri við alþjóðavæðinguna.
Aðrar vinstriútgáfur, t.d. Guardian, birta greinar sem gefa lýðhyggju undir fótinn, án hennar er ekkert lýðræði.
Ef vel tekst til með lýðhyggjuna verður heldur skárra að búa í henni veröld. Fólk fær aftur tilfinningu fyrir að sitthvað er heimamenning og heimsmenning. Við höfum alltaf búið í ólíkum samfélögum - draumurinn um heimsþorpið snýst einatt upp í martröð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.