Sunnudagur, 23. september 2018
Launahækkun óþörf: dugnaður og heppni ræður stéttastöðu
Ísland er jafnlaunaland. Af því leiðir þarf ekki að hækka launin við gerð næstu kjarasamninga, aðeins leiðrétta þau m.t.t. launavísitölu. Dugnaður og heppni ræður stéttastöðu fólks.
Þeir heppnu velja sér foreldra sem eiga pening. Þeir óheppnu eiga um tvo kosti að velja. Að sætta sig við síðri afkomu en þeir heppnu eða duga sér og sínum til að færast upp um stétt eða tvær. Menntun er þar lykilatriði.
Ofanritað er samantekt á viðtengdri frétt. Þar segir að sex stéttir séu á Íslandi. Arfur og menntun ræður mestu um stéttastöðu fólks.
Á Íslandi frá miðöldum voru fjórar stéttir: stórbændur og embættismenn (prestar, sýslumenn) sátu efst; þar á eftir meðalbændur; þá fátækir bændur og loks vinnuhjú. Hreyfanleiki milli stétta þótti fullboðlegur. Með sparnaði og elju gátu vinnuhjú orðið leiguliðar, þ.e. fátækir bændur. Fátækur bóndi gat orðið meðalbóndi og sá meðalgildi stórbóndi. Sömu breyturnar voru að verki og í dag; arfur, dugnaður og menntun.
Niðurstaða: í jafnlaunalandi eru það ekki tekjurnar sem skipta höfuðmáli. Heldur dugnaður og heppni.
Eignaskipting mjög ójöfn á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þessi fróðleikur kennarans um kjör genginna kynslóða hrífur ekki á mig.
Þegar ég var í sveit sem drengur kynntist ég þálifandi fólki, sem "valdi sér ekki foreldra", heldur fæddist inn á heimili hörmunga, sem flosnaði upp.
Margrét Sigurðardóttir fræddi mig um þetta og ég las um það síðar. "Hún valdi sér ekki foreldra" þegar hún hraktist sem barn bæ af bæ og var haldið í raunverulegu vistarbandi við ömurleg kjör pg vinnuþrælkun upp frá því, þvert á lög, þegar fram liðu stundir.
Öll heiðakot í Húnavatnssýslu voru setiin, allt upp í Rugludal í meira en 400 metra hæð yfir sjó langt inni á Auðkúluheiði.
Þaðan hraktist Ásdís Jónsdóttir skáldkona með heilsulausum bónda sínum og tveimur dætrum og þær þrjár urðu niðursetningar í hálfhrundum torfbæ á bænum, sem ég var í sumardvöl fimm sumur við ólýsanleg kjör eftir að heimilisfaðirnn andaðist langt um aldur fram.
Amma mín var send sjö ára frá Hólmi í Landbroti austur yfir Skeiðarársand í skiptum fyrir kú.
Hún "valdi sér ekki foreldri".
Það er ekki lengra síðan að þetta gerðist. Ég er að tala um ömmu mína og fólk á sama bæ og ég dvaldi.
Takk fyrir fróðleikinn, því að hann sýnir mér þá firringu gagnvart aldagamalt misrétti, sem jafnvel er látin flakka í hátíðarræðum forsætisráðherra.
Vesturfarir voru úr sögunni og þéttbýlismyndun hafði verið haldið niðri.
Ómar Ragnarsson, 23.9.2018 kl. 10:45
Leiðrétting: Það vantar kommu á eftir orðinu sumardvöl. Mæðgurnar lifðu við ólýsanleg kjör, ekki ég.
Ómar Ragnarsson, 23.9.2018 kl. 10:47
Og: "aldagamalt misrétti" á auðvitað að vera "aldagömlu".
Ómar Ragnarsson, 23.9.2018 kl. 10:49
Páll talar um dugnað og heppni Ómar. Það að fæðast inn í velmegandi fjölskyldu er heppni. Orðalagið að fólk velji sér foreldra er klaufalegt og augljóst að það er ekki það sem höfundur á við.
En ég átta mig ekki alveg á hvað átt er við með því að "leiðrétta launin með tillitit til launavísitölu". Launavísitala mælir hver launin eru. Þetta er því svipað því að menn leiðrétti hæð sína miðað við það hvað tommustokkurinn segir.
Þorsteinn Siglaugsson, 23.9.2018 kl. 11:02
Sælir báðir Ómar og Þorsteinn, við veljum okkur ekki líffræðilega foreldra, satt er það. En fólk velur sér ská-foreldra, oft kallað tengdaforeldrar.
Punkturinn með foreldrum er að við erum ýmist heppin eða óheppin að þessu leyti, fæðumst inn í félagslegar aðstæður og með erfðaefni sem móta okkur. Ekki þó alfarið; við höfum frjálsan vilja og tökum ákvarðanir um líf okkar. Sumir taka margar rangar ákvarðanir og klúðra sínu lífi á meðan aðrir eru oftar á réttunni og skila af sér sæmilegu starfi. Svo eru auðvitað stöku stórmenni, rétt eins og stöku ræflar.
Með launavísitölu er átt við að frá því að síðustu aðalkjarasamningar voru gerðir á vinnumarkaði fyrir þremur árum hafa laun hækkað. Sjálfsagt veit Þorsteinn það ekki en kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru lágmarkstaxtar. Ef vel árar og eftirspurn er eftir vinnuafli hækka laun umfram samninga - launavísitala mælir þá hækkun.
Páll Vilhjálmsson, 23.9.2018 kl. 12:18
Hvernig leiðréttir maður laun m.t.t. launavísitölu?
Þýðir það að allir eigi að fara á sömu meðallaunin?
Það eru einu upplýsingarnar sem launavísitala veitir.
Guðmundur Ásgeirsson, 23.9.2018 kl. 16:29
Launavísitala mælir raunlaun, Guðmundur, kauptaxtar segja hver nafnlaun lágmarkstaxta eru. Nokkur munur þar á milli.
Páll Vilhjálmsson, 23.9.2018 kl. 18:09
Þessi lógík leiðir þá væntanlega til þess að lágmarkstaxtar hækka verulega. Það er nú ekki sérlega varfærið. En reyndin er hins vegar sú að einungis mjög fáir eru á þessum lágmarkstöxtum svo breyting á þeim hefur væntanlega mjög lítil áhrif. Mun skynsamlegra er að semja um launahækkanir miðað við almenna verðlagsþróun frá því að laun hækkuðu síðast.
Þorsteinn Siglaugsson, 23.9.2018 kl. 18:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.