Vinstrimenn banna bjargvætt Evrópu

Innanríkisráðherra Ítaliu kallar hann bjargvætt Evrópu. Maðurinn er bandarískur og er þakkað að Trump sigraði í forsetakosningunum fyrir tveim árum. Hægrimenn í Evrópu leita til hans í sókn sinni til valda. Vinstrimenn vilja banna hann frá opinberum vettvangi; engin fjölmiðlaumfjöllun - þöggun.

Maðurinn heitir Steve Bannon. Vinstriútgáfan Guardian segir hugmyndin hans hættulegar og réttlætir þar með fjölmiðlabann á Bannon. Kvikmyndagerðarmaður er úthrópaður sem svikari fyrir að setja saman ræmu um fyrrum hugmyndafræðing Trump. Tímaritið New Yorkar fékk á sig áhlaup er það hugðist taka við hann viðtal.

Nú vita allir að enginn einn maður bjargar heimsálfu, jafnvel ekki þjóðríki. (Ok, Sigmundur Davíð fór langt með að vera bjargvættur Íslands, en látum það liggja milli hluta). Bannon bjargar ekki Evrópu fremur en Trump Bandaríkjunum. Svona þegar kurlin koma öll til grafar. Báðir eru þeir engu að síður holdtekjur breytinga í stjórnmálum. Þó ekki meiri en svo að hvorugur boðar byltingu ríkjandi þjóðskipulags. Trump er ekki Lenín,  Bannon enginn Trotský.

Áhugaverðast í þessari umræðu er hve vinstrimönnum er ósárt um tjáningarfrelsið. Á síðustu öld mátti reiða sig vinstrimenn sem málssvara grundvöll mannréttinda; að fá að tala. Ekki lengur. Vinstrimenn eru stoltir ritskoðendur frjálsrar orðræðu. Rökin eru þau að sumar hugmyndir eru of hættulegar til að þær megi ræða.

Þeir sem óttast hugmyndir óttast bæði sannleikann og lýðræðislega málamiðlun. Hvorugt fæst án umræðu. Bjargvættur Evrópu er ekki Ameríkani heldur frjáls orðræða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband