Stærsta ekki-fréttin: um óheilindi

Stærsta ekki-frétt vikunnar er skýrsla starfshóps um siðferði í stjórnmálum. Skýrslan var kynnt með blaðamannafundi en fékk sáralitla umræðu, sem er miður. Aðalhöfundur skýrslunnar, Jón Ólafsson, er menntaður í heimspeki og sagnfræði og tekið þátt í stjórnmálaumræðu, einkum á vinstri væng stjórnmálanna.

Jón gerði heilindi, eða skort á þeim, miðlæg í kynningunni, sbr. fyrirsögn á frétt mbl.is: Hægt gengið að tryggja heilindi.

Heilindi verða til - eða tapast - í stjórnmálamenningunni, sem er, þegar að er gætt, tvístofna. Í fyrsta lagi stjórnmálamenn og viðhengi þeirra, s.s. aðstoðarmenn ráðherra, starfsmenn flokka, félagar í stjórnmálasamtökum. Í öðru lagi þeir sem taka til máls um stjórnmál; fjölmiðlamenn, bloggarar, virkir i athugasemdum, höfundar skilaboða á samfélagsmiðlum. Seinni hópinn má kalla álitsgjafa.

Við höfum sem sagt tvo hópa sem móta stjórnmálamenninguna. Stjórnmálamenn og viðhengi þeirra annars vegar og hins vegar álitsgjafa.

Jón Ólafsson og flestir sem taka til máls um siðferði í stjórnmálum láta eins og stjórnmálamenn séu einir um ábyrgðina á heilindum í stjórnmálum. Það er grundvallarmisskilningur, bæði á stjórnmálum og heilindum. Þótt stjórnmálastéttin yrði í einu vetfangi frómari en móðir Theresa yrðu heilindi engu meiri ef álitsgjafar stjórnmálanna tækju ekki til í eigin ranni.

Hömluleysi, í bókstaflegum skilningi, einkennir umræðu álitsgjafanna. Fyrir daga netmiðlunar voru hömlur á hvað hægt var að segja á opinberum vettvangi. Hversdags-Jón, sem hvorki var tengdur stjórnmálum né fjölmiðlum, átti aðeins um tvo kosti að velja í opinberri umræðu. Hann gat mætt á fund og komið áhugamálum sínum á framfæri eð skrifað grein eða lesendabréf og beðið dagblað eða tímarit um birtingu. Það voru sem sagt hömlur á aðild fólks að almannarými umræðunnar.

Samfélagsmiðlar gjörbreyttu opinberri umræðu. Allir geta tekið þátt, orðið fjölmiðill í almennum skilningi orðsins. Dagblöð, ljósvakamiðlar og tímarit, sem áður voru hliðarverðir umræðunnar, fylgdu í humátt eftir og urðu hömlulausir, fóru í samkeppni við blogg, fésbókarfærslur og tíst. Stór hluti frétta hefðbundinna fjölmiðla er samtíningur úr samfélagsmiðlum.

Eyru fýsir illt að heyra, segir gamalt orðtak. Það þarf ekki að fjölyrða um áhrif samfélagsmiðla  á heilindi í stjórnmálum. Umræða um siðferði í stjórnmálum, sem aðeins tekur til stjórnmálastéttarinnar, er eins og samtal um stafsetningu án orða.


mbl.is Hægt gengið að tryggja heilindi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband