Skemmtikommúnismi

Á 19. öld var kommúnismi hugsjón um réttlátt samfélag. Á 20. öld var hugmyndafræðinni hrint í framkvæmd; hún virkaði ekki. Eftir að tilraunin með sósíalisma með mennskri ásjónu í Tékkóslóvakíu var barin niður með sovéskum skriðdrekum 1968 trúði enginn óbrjálaður á sósíalísku uppskriftina að samfélagi. 20 árum síðar féll Berlínarmúrinn og kommúnisminn fór á öskuhauga sögunnar.

En nú róta einhverjir í ruslinu og þykjast finna nýtilega hluti. Í endurvinnslunni verður til skemmtikommúnismi, sem er til umræðu í bresku pressunni og finnur einnig leið í þá íslensku.

Skemmtikommúnismi gengur út á að læra ekkert af sögunni en vopnast stórum orðum til að merkja óvininn, raunverulegan eða ímyndaðan. Eins og kommúnismi gamla skólans var ávallt með andstæðingana á hreinu, auðvaldið og meðhlaupara þess, vita skemmtikommúnistar allt um andskota sína, og meira til, en hvorugir hvað á að koma í staðinn, eftir byltinguna.

Lítil saga um vanda kommúnista, bæði sígildra og skemmtiútgáfunnar, er í æviminningum Victor Serge. Hann er ungur maður af rússnesku foreldri, önnur kynslóð byltingarmanna um aldamótin 1900. Serge er nýfarinn að heiman að vinna sósíalískri byltingu brautargengi í Lille á Flandri. Vinnudagurinn er langur og hann les sér til í fræðunum á kvöldin í kytru þar sem rúmstæðin eru aðskilin með þunnu lérefti.

Par var með rúmstæði handan léreftsins. Þau dýrkuðu hvort annað. Hann barði hana fyrir samfarir. Ég heyrði hana snökta ,,lemdu mig aftur, aftur." Ég áttaði mig á vanhaldi fræðanna sem ég hafði lesið um verkakonur. Mun það taka aldir að breyta heiminum og mannfólkinu? Hvert okkar á þó aðeins eitt líf.

Skemmtikommúnisminn er leikfang unglinga og bernskra fullorðinna sem ætla að breyta heiminum án þess að skilja hann. Afleiðingin verður óhjákvæmilega hörmung fyrir annað tveggja; þau sjálf eða okkur hin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband