Sunnudagur, 15. júlí 2018
Moggi eignast Fréttablaðið - eða öfugt?
Á meðan dagblöð voru voldugar stofnanir, á síðustu öld, þekktist það að dreifingarfyrirtæki blaðanna eignuðust útgáfurnar. Þetta gerðist t.d. í Bandaríkjunum. Dagblað án dreifingar var einskins virði. Á Íslandi var prentun dagblaða dýrasti hluti útgáfunnar. Litlu vinstridagblöðin stofnuðu til sameiginlegrar prentsmiðju, Blaðprent, til að halda lífi.
En feigum var ekki forðað. Þjóðviljinn, Alþýðublaðið og Tíminn gáfu upp öndina á síðasta áratug liðinnar aldar. Fréttablaðið var arftaki Dags-Tímans, sem var síðasta tilraun vinstriútgáfu hér á landi.
Eftir að Jón Ásgeir í Baugi, með Gunnar Smára sósíalistaforingja sem handlangara, endurreisti gjaldþrota Fréttablaðið um aldamótin varð útgáfan jöfnum höndum málgagn auðmannastéttar og Samfylkingar. Tvíhöfða þursinn varð öflugur málsvari einokunar á fjölmiðlamarkaði þegar frumvarp Davíðs Oddssonar þáverandi forsætisráðherra reyndi að koma lögum á uppgang auðmanna kortéri fyrir hrun.
En núna, sem sagt, sameinast dreifingarfyrirtæki Morgunblaðsins og Fréttablaðsins til ,,að innlendir aðilar, stórir og smáir hafi aðgang að öflugri dreifingarþjónustu sem veitir einokunarþjónustu ríkisins samkeppni og aðhald." Eiginkona Jóns Ásgeirs stýrir afganginum af fyrrum einokunarveldi fjölmiðlasamsteypunnar kenndri við 365-miðla og blæs í herlúðra gegn einokun ríkisins á dreifingu prentmáls. Einokun er fyrir auðmenn, segir eiginkonan, en ríkiseinokun vont mál.
Sameining dreifingar Morgunblaðsins og Fréttablaðsins vekur ekki úlfúð eða deilur líkt og fyrrum þegar dagblöð voru nátengd pólitík. Á tímum netmiðlunar er prentmál neðanmálsgrein í umræðunni. Morgunblaðið heldur velli vegna Davíðs Oddssonar ritstjóra. Án hans væri það ekki borgaralegt blað heldur létt samsuða sem krakkarnir á ritstjórninni skynja að beri hæst í netumræðunni.
Fréttablaðið er auglýsingaútgáfa sem enginn kaupir. Eftir að Samfylkingin hætti að vera áhugaverð pólitík hallaði ritstjórnin sér að Viðreisn. Ásamt því, auðvitað, að vera auðmannamálgagn.
Skiptir máli að Morgunblaðið eignast Fréttablaðið - eða öfugt? Eiginlega ekki.
Árvakur og 365 miðlar kaupa Póstmiðstöðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það hefur tekið blóð, svita og tár að komast hjá því að fá Fréttablaðið inn um lúguna hjá mér. Ég vona að ballið byrji nú ekki aftur.
Ragnhildur Kolka, 15.7.2018 kl. 09:49
Því var fleygt, að eitt fyrsta verk þeirra Steingríms og Jóhönnu hafi verið að tryggja áframhaldandi rekstur og útgáfu Fréttablaðsins með eins milljarðs kúluláni.
Hver skyldi staða þess láns vera í dag?
Jónatan Karlsson, 15.7.2018 kl. 10:23
Að tala um einokunaraðstöðu ríkisins í dreifingu bera miklu þekkingarleysi og vankunnáttu vitni.
Legg til að þú kynnir þér dreifingu á fjölpósti og auglýsum áður en þú skellir fram svona frösum.
Jón Ingi Cæsarsson, 15.7.2018 kl. 12:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.