Þriðjudagur, 10. júlí 2018
Trump með pólitískt líf May í hendi sér
Bandaríski sendiherrann í London hvatti Theresu May forsætisráðherra Breta að taka Donald Trump forseta sér til fyrirmyndar í viðræðum við Evrópusambandið um úrsögn, Brexit. May fylgdi ekki ráðum sendiherrans og gafst upp fyrir ESB.
Viðbrögð sendiherrans voru fyrirsjáanleg. Óvíst er að Bretland fái viðskiptasamning við Bandaríkin eftir Brexit, sagði hann.
May er stórlega löskuð eftir afsögn tveggja þungavigtarráðherra. Hún þarf virkilega á velvild Trump að halda.
Trump er í viðskiptastríði við Evrópusambandið. Hann er líka í diplómatísku stríði við sambandið. Forsetinn vill betri samskipti við Rússa en ESB keppist við að halda uppi óvinaímyndinni af Rússum, Pútín forseta sérstaklega.
Trump er líklegur til að hvetja May forsætisráðherra að taka upp harðari Brexit-stefnu og hóta ESB að gera enga samninga. May, á hinn bóginn, getur ekki horfið frá stefnu sem hún samþykkti síðustu helgi og kostaði hana afsögn tveggja ráðherra. Við það hyrfi trúverðugleiki hennar.
Hófstilltur Bandaríkjaforseti myndi ef til vill leika biðleik. Segja ekkert stórt til að raska ekki viðkvæmri pólitískri stöðu breska forsætisráðherrans. En Donald Trump er ekki beinlínis hógværðin uppmáluð. Kannski blíðkar May Trump með afgerandi stuðningi við leiðtogafund Trump og Pútín sem verður í Finnlandi eftir heimsóknina til Bretlands.
Það er stórt kannski. Meiri líkur eru á að May standi verr en betur eftir heimsókn Trump.
Trump hlakkar til ferðar til Bretlands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.